135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[18:01]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hún er svolítið brosleg þessi umræða sem hefur snúist upp í nagg og trumbuslátt tveggja gamalla herstöðvarandstæðinga, hæstv. iðnaðarráðherra og hv. þm. Jóns Bjarnasonar.

Spurt hefur verið um hver eigi þessi mannvirki. Mér sýnist af ræðum tveggja síðustu ræðumanna að þeir hafi kannski hvorugur sett sig nógu vel inn í það sem er að gerast á öllu svæði Keflavíkurflugvallar. Það er alveg ljóst að íslenska ríkið á eignirnar á Keflavíkurflugvelli. Það er líka alveg ljóst að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar hefur umboð til að selja eignirnar og ganga þar til verka. Það fer ekkert á milli mála. Þetta ættu allir að vita sem fjalla um þetta mál.

Talað hefur verið um hættuna af rafmagni, 110 volta rafmagni. Það er alveg ljóst að rafkerfið á Keflavíkurflugvelli er mjög vel gert og vandað. Þar er 110 volta kerfi. Það er ekki nákvæmlega sama uppbygging á því og 220 volta kerfinu, t.d. varðandi lekaleiðara og slíkt, en það hefur alls staðar reynst mjög vel. Í Japan til að mynda, þar sem hefur verið mest þróun í þessu, geta menn valið um það hvort þeir taka 220, 110 eða 60 volta kerfi. Þetta er einfaldlega hlutur sem menn horfast í augu við í nútímanum. Það er alveg ljóst að ef breyta ætti kerfinu á Keflavíkurflugvelli mundi það kosta um 4 milljarða kr. Það mundi binda alla rafvirkja á Íslandi í tvö til þrjú ár. Það yrði enginn rafvirki til aflögu annars staðar. Svo það er af mörgum ástæðum sem menn verða að horfast í augu við að gera þetta almennilega.

Það hefur verið gagnrýnt að málið hafi komið seint fram frá Keflavíkurmönnum eða flugvallarmönnum. Þeir hafa unnið aðdáunarlega hratt og vel að framgangi þessa máls eftir það áfall sem varð þegar herinn fór mjög skyndilega. Það er ástæðulaust fyrir iðnaðarráðherra að gera mikið úr þeim skemmdum sem urðu í frostum á sínum tíma því að þær voru miklu, miklu minni en um var fjallað í fréttum. Það ætti auðvitað hæstv. iðnaðarráðherra að vita.