135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[18:05]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú hvetja hv. þm. Jón Bjarnason til upp á Keflavíkurflugvöll og skoða þau mannvirki sem þar eru. (Gripið fram í.) Nei, sá sem spyr í hvaða ástandi mannvirkin eru og hvernig hús þetta eru hefur ekki skoðað þau vegna þess að mannvirkin eru í mjög góðu ástandi. Þetta eru mjög vandaðar byggingar, rúmar að stærð og öllu slíku. Það er alveg klárt að sá sem spyr hefur ekki kannað til hlítar hvernig þau mál standa.

Það er líka alveg ljóst að það er alveg sama hvar maður kemur í heiminum, maður þarf að kynna sér öll grundvallaratriði. Það er auðvitað borðleggjandi að þeir sem sjá um framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli hljóta að kynna það mjög vel að það sé 110 volta rafmagn á Keflavíkurflugvelli. Það ætti ekki að vera neitt erfitt fyrir venjulegt fólk að umgangast það.

Þessi umræða hefur farið svona út og suður og mér fannst svolítið skrýtið þegar hv. þm. Jón Bjarnason fór að tala um að umræðan væri farin úr böndum þegar maður benti á staðreyndir málsins og meira að segja það sem að var spurt því að hv. þingmaður margspurði: Hver á eiginlega þessar eignir og hver hefur leyfi til að selja þær? Ég held að ég hafi svarað því alveg rétt.