135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[18:09]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ekki er gerð athugasemd við það af hálfu þingflokks okkar, Frjálslynda flokksins, að þetta húsnæði sé tekið til þeirra nota sem reyndin er og reynt að styrkja atvinnulíf á Suðurnesjum til mótvægis við þá breytingu sem varð þegar herinn fór þaðan, því að vissulega urðu miklar breytingar þar og margir misstu atvinnuna við þau tímamót. Það er því eðlilegt að ríkisstjórnin leitist við að styðja við bakið á fólki sem þar býr og nýta m.a. þessar eignir til atvinnuskapandi aðgerða.

Það má kannski geta þess vegna þess að í dag fór fram umræða um flutningsstyrki að mér sýnist að í þessu máli sé í raun og veru um ígildi flutningsstyrkja að ræða í formi þess að húsnæðið er lagt til félagi fyrir lítið sem ekkert fé. Það getur leigt út húsnæðið á mjög lágu verði, svo lágu að fólk sem býr í Reykjavík og er þar í háskólanámi sér sér hag í því að flytja til Keflavíkur og búa þar en stunda námið áfram í Reykjavík.

Ég sá í blaði í sumar að talið væri að þessi stuðningur ríkisins jafngilti um 100 þús. kr. á mánuði fyrir hverja íbúð. Ég hef ekki kannað sannleiksgildi þess. Þetta er hins vegar augljóslega mikill stuðningur sem ríkið er að leggja fram til að efla atvinnulíf á þessu svæði. Ég vil draga það fram einmitt af þessu tilefni að í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hafa verið uppi hugmyndir um að hækka verulega flutningsstyrk til að fá fólk til að flytja sig frá stöðum þar sem vinna hefur horfið eða er að hverfa og á aðra staði þar sem vinnu er að hafa. Þarna er um að ræða mjög ólíka nálgun til sambærilegra viðfangsefna og ég vil lýsa yfir stuðningi mínum við viðbrögð ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar á Suðurnesjum þannig að það liggi fyrir.

Hins vegar hef ég efasemdir um að rétt sé efnislega að setja lög sem undanskilja ákveðinn hluta landsins eða íbúa öryggisákvæðum laga sem ætlað er til að vernda líf og limi fólks. Ef það er nauðsynlegt að hafa slík ákvæði í lögum, hvort sem það varðar raflagnir eða eitthvað annað, þá sé ég ekki rökstuðninginn fyrir því að unnt sé að víkja frá þeim ákvæðum í þrjú ár á tilteknu svæði þannig að fólk á því svæði geti með fullkomnu öryggi eftir sem áður búið þar og öryggisákvæðin eigi ekki við. Það fer ekki saman að mínu viti og ég set fram efasemdir um að rétt hafi verið að gera slíkt, a.m.k. finnst mér ekki hafa komið fram sá rökstuðningur fyrir því að víkja frá með staðbundnum hætti ákvæðum laga af þessum toga. Ef það reynist vera svo að ríkisstjórnin telji óhætt að gera það hlýtur það að vera yfirlýsing um að slíkt geti átt við önnur öryggisákvæði á öðrum svæðum landsins og hvert erum við þá komin, virðulegi forseti?

Ég geri alvarlegar athugasemdir við það að sett voru bráðabirgðalög. Ég minni á ályktun þingflokks Frjálslynda flokksins sem send var út í sumar þegar lögin voru sett þar sem við mótmæltum því harðlega. Rökstuðningur hæstv. ráðherra fyrir þessu er ekki sannfærandi þar sem hann segir annars vegar: Það var ekki nægjanlegt tilefni til að kalla Alþingi saman að mati ríkisstjórnarinnar. Ég endurtek: Það var ekki nægjanlegt tilefni til að kalla Alþingi saman. Og hins vegar: Það voru gífurlegir hagsmunir undir. Þetta fer ekki saman, virðulegi forseti. Ef það eru gífurlegir hagsmunir undir er það auðvitað viðfangsefni Alþingis að útkljá mál sem tengjast því.

Ég vil í stuttu máli rifja upp að þegar gerð var breyting á stjórnarskrá lýðveldisins 1991 og deildaskipting Alþingis afnumin, þá var líka gerð breyting sem lýtur að bráðabirgðalagavaldi ríkisstjórnarinnar eða forsetans að formi til og því var lýst mjög nákvæmlega í framsöguræðum þeirra sem fluttu það mál í efri og neðri deild Alþingis, Ólafs G. Einarssonar og Margrétar Frímannsdóttur. Ólafur G. Einarsson sagði um þetta mál í þingræðu á fyrra þinginu sem stjórnarskrárbreytingin var til umfjöllunar, með leyfi forseta:

„Við þingflokksformenn höfðum ekki uppi tillögur um að breyta starfstíma Alþingis að neinu verulegu leyti. Það verður að þróast eftir sínum lögmálum á næstu árum. En við leggjum til að þingið verði sett 1. okt. og það starfi fram í maí, lengur eða skemur eftir því sem verkast vill. Þá sé þingfundum frestað til loka þingársins með því skilyrði að það sé kallað saman ef nauðsyn krefur,“— ég endurtek: með því skilyrði að það sé kallað saman ef nauðsyn krefur — „t.d. til þess að afgreiða aðkallandi löggjöf að ósk ríkisstjórnar eða efna til mikilvægra umræðna.

Við teljum þetta mikilsverða breytingu sem treysti störf Alþingis og stöðu löggjafarsamkundunnar í stjórnkerfinu. Alþingi er því starfshæft allt árið og getur komið til funda mjög skjótlega ef þörf er á.“

Ólafur G. Einarsson segir líka í ræðu sinni fyrir þessu þingmáli að þingflokksformenn hafi rætt við undirbúning málsins hvort gera ætti verulegar breytingar á heimild forseta til að gefa út bráðbirgðalög. Hann segir, með leyfi forseta:

„Niðurstaða okkar varð sú að gera nokkrar breytingar á ákvæðunum um útgáfu bráðabirgðalaga og meðferð þeirra á Alþingi, og mun ég koma að þeim síðar, en jafnframt þessa breytingu á starfstíma Alþingis í því skyni að ekkert stæði í vegi fyrir því formlega að Alþingi gæti komið saman til fundar með stuttum fyrirvara ef eftir því væri óskað og ríkisstjórn teldi það mikilvægt.

Þetta var sú niðurstaða sem unnt var að fá með samþykki allra nefndarmanna.“ — Allra þingflokksformanna sem þá voru.

Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi þingmaður, sagði um þetta mál í framsöguræðu sinni fyrir málinu í neðri deild, með leyfi forseta:

„Að vísu er það svo að ríkisstjórn mun áfram hafa heimild til þess að leggja til við forseta að gefa út bráðabirgðalög meðan þingfrestanir standa, en það er skilningur allra sem að þessu máli hafa staðið að til þess komi ekki nema í sérstökum neyðartilvikum, heldur verði tekinn upp sá nýi siður að verði þörf á skjótri löggjöf utan venjulegs starfstíma Alþingis, t.d. yfir sumartímann, þá verði Alþingi kallað saman til aukafunda til þess að afgreiða hana með eðlilegum hætti.“

Virðulegur forseti. Ég læt lokið tilvitnun í framsöguræður þingmanna fyrir stjórnarskrárfrumvarpinu 1991, á fyrra þinginu sem það var lagt fyrir og samþykkt á Alþingi, til að skýra hvernig það samkomulag sem stjórnarflokkarnir á þeim tíma gerðu um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins og sérstaklega skilning þeirra á meðferð lagaákvæðisins eða stjórnarskrárákvæðisins um bráðabirgðalög. Í þessu tilviki hefur ekki verið haldinn sá skilningur sem menn komu sér saman um, ekkert frekar en það var gert árið 2003 þegar þáverandi landbúnaðarráðherra gaf út bráðabirgðalög sem ég gagnrýndi harðlega þá, bæði utan þings og innan. Ég held enn fram þeim skilningi sem samkomulag varð um og ég stóð að á síðara þingi árið 1991 til að það falli ekki í gleymskunnar dá og til þess að ríkisstjórnin fari ekki að fikra sig upp eftir þessum þræði og útvíkka bráðabirgðalagaheimildina frá því sem ætlunin var að yrði.