135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[18:21]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fellst á athugasemdir hv. þingmanns varðandi útgáfu bráðabirgðalaga. Ég er honum sammála í því að menn eiga að fara sparlega með þá heimild. Hér hefur verið marglýst yfir af hverju og til hvers þessi bráðabirgðalög voru sett og ég get svo sem fallist á þau rök hjá hæstv. viðskiptaráðherra.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann. Hann talaði um að vikið sé frá öryggisstöðlum með þessum lögum og hann talar eins og að einhver ógnarhætta skapist þarna í 2–3 ár. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig fóru Ameríkanar að því að vera þarna í 50 ár með þessa ógnarhættu yfir sér allan tímann? Nú er sagt að raflagnir þarna séu í samræmi við ameríska staðla. Er hv. þingmaður að gefa í skyn að 280 millj. Bandaríkjamanna lifi í stöðugri ógn og hættu og að þeir ættu að taka sig snarlega til og taka upp íslenska staðla?

Ég held að þetta sé misskilningur. Þessar raflagnir eru gerðar samkvæmt amerískum stöðlum og þeir staðlar eru mjög góðir og öruggir fyrir þau tæki sem þar eru notuð. Ég bendi á að 110 volt er miklu lægri spenna en 220 volt og bara þess vegna er kerfið miklu hættuminna en það kerfi sem við búum við sem er 220 volt en sparar náttúrlega mikið í viðnámi og slíku því það er þekkt að þegar spennan minnkar eykst viðnám og það þarf sverari víra.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji að þarna sé virkilega hætta á ferðum næstu þrjú árin?