135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[18:24]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur verið séð við þessu um heiminn allan vegna þess að menn eru með mismunandi staðla í klóm, bandarískar klær eru allt öðruvísi en okkar klær og menn setja ekki tækin í samband nema í rétt kerfi. Auðvitað gæti það gerst að einhver íbúi þarna setti tæki sem væri fyrir íslenskan staðal í samband þarna en þá gerist ekki neitt vegna þess að spennan er of lág og tækin brenna ekki yfir. Færu menn hins vegar hina leiðina og settu eitthvert tæki frá Bandaríkjunum í samband á Íslandi þá gæti það brunnið yfir og það hefur svo sem margur Íslendingur reynt sem hefur keypt rafmagnstæki í Ameríku.