135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

verslunaratvinna.

66. mál
[18:26]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, með síðari breytingum, sem lýtur að eigendasögu myndverka. og er nokkuð þekkt mál úr umræðunni.

Lagafrumvarp þetta sem samið er í viðskiptaráðuneytinu og flutt var á síðasta löggjafarþingi en var ekki lokið, tekur mið af tillögum starfshóps sem menntamálaráðherra skipaði í maí árið 2004 til að fjalla um fölsun listaverka og gera tillögur um hvernig unnt væri að bregðast við þeim mikla vanda sem var kominn upp og er uppi á íslenskum listaverkamarkaði þar sem fram komu alls konar vísbendingar og staðreyndir um að umfang falsaðra verka á listaverkamarkaði væri töluvert, bæði eftir fræga meistara sem allir þekkja og aðra. Slík vitneskja, slíkur orðrómur og slík staða vegur að sjálfsögðu að listaverkamarkaðnum í heild, gengisfellir listaverkin og kemur óróa og óvissu á markaðinn og veldur þar uppnámi sem verður að leysa. Staðan er sú að markaðurinn tryggir ekki án einhverrar aðkomu okkar að þessu að listaverk séu ekki fölsuð í stórum stíl og markaðurinn þannig eyðilagður.

Hliðsjón hefur verið höfð af umsögnum sem komu fram um frumvarpið í fyrra, t.d. til hvaða myndverka ákvæði þessi ættu að ná o.s.frv. Von mín er því sú að frumvarp það sem nú er lagt fram nái fram að ganga og skjóti þannig mikilvægum stoðum undir listaverkamarkaðinn.

Í frumvarpinu er í stuttu máli gerð krafa til þess að seljandi leggi fram eigendasögu myndverks, enda sé myndlistarmaðurinn, innlendur sem erlendur, á skrá Listasafns Íslands. Gildir þetta ef myndverkið selt hjá listaverkasala sem annast viðskipti í atvinnuskyni ellegar á opnu eða lokuðu listmunauppboði. Bera annars vegar seljandi og hins vegar verslunaraðili, listaverkasali eða uppboðsstjóri, nánar tilteknar skyldur hér að lútandi. Ákvæði frumvarpsins um ábyrgð hafa verið hert með breytingu á 3. mgr. 23. gr. laganna, þ.e. ákvæðunum um svik. Ná þau ekki aðeins til seljenda heldur einnig til verslunaraðila. Jafnframt er kveðið á um að gæta skuli sérstakrar varúðar varðandi ranga eignaraðild og hættu á fölsun verkanna. Áskilnaður um eigendasögu við sölu myndverka hinna tilteknu myndlistarmanna hjá listaverkasala, á opnu listmunauppboði eða á lokuðu listmunauppboði getur dregið úr hættu á fölsunum myndverka með þar af leiðandi tjóni, jafnvel miklu tjóni fyrir ýmsa aðila, eins og ég gat um áðan, svo og myndlistarmarkaðinn í landinu í heild sinni. Það veikir og vegur að stoðum markaðarins og svo er að sjálfsögðu um að ræða mikilvæga neytendavernd fyrir þá sem kaupa myndlistarverk hvort heldur er til að fjárfesta í eða skreyta heimili sín eða hvoru tveggja.

Eigendasagan kemur einkum að gagni þegar um er að ræða eldri eða mjög dýr myndverk þar sem minnstum vafa má vera undirorpið hvort um er að ræða falsað verk eða ekki. Ekki er þó með kröfugerð unnt að tryggja að eigandi leggi eigendasöguna fram. Skortur á eigendasögu eða hnökrar á henni geta hins vegar leitt til þess að viðkomandi myndverk verði ekki tekið til sölu, seljist á lægra verði eða seljist jafnvel alls ekki. Hér er að því stefnt að bestu fáanlegu upplýsingum sé safnað saman fyrir alla aðila, bæði þá sem selja verkin, eiga verkin og þá sem kaupa verkin o.s.frv. sem einhvers konar varnagla gagnvart fölsunum.

Fjármálaráðuneytið telur að frumvarpið leiði ekki til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til viðskiptanefndar.