135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

verslunaratvinna.

66. mál
[18:30]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég hef verulegar athugasemdir við þetta frumvarp. Í fyrsta lagi sé ég engan tilgang með því, það er algjörlega óþarft vegna þess að markaðurinn gæti jú sett sér sínar reglur sjálfur og gerir það örugglega. Það þarf ekki atbeina löggjafans til þess að setja svona reglur.

Ég er sérstaklega á móti þessu vegna þess að þetta er takmörkun á eignarrétti eða skerðing á honum að einhverju leyti. Menn geta ekki lengur selt eignir sínar án þess að eitthvað fylgi með sem löggjafinn er búinn að skilgreina sem eigendasögu og síðan er Listasafn Íslands með mjög sérkennilegt hlutverk þarna, að skilgreina hverjir eru listamenn á Íslandi, hverjir eru myndlistarmenn. Nú veit ég ekki einu sinni hvað myndlistarmaður er því að ég veit ekki hvernig er með ljósmyndara. Ég tek heilmikið af ljósmyndum og ég veit ekki hvort ég ætti þá að fara á skrá hjá Listasafninu.

„Myndverk“ er örugglega mjög víðtækt hugtak og þetta gæti orðið mjög stórt mál fyrir Listasafn Íslands, að skilgreina hverjir eru þess verðir að falla undir slíka skrá og hverjir ekki. Hvað gerist ef maður fellur inn á þessa skrá með mikinn fjölda af málverkum eða listaverkum sem ekki hafa verið skráð þangað til eigendasaga var fyrir?

Ég sé ekki að það sé þörf á atbeina ríkisvaldsins og löggjafans til þess að setja svona reglur. Ég mun greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi.

Á ýmsum sviðum hafa menn sett sér svona reglur. Ég minni á að Hundaræktarfélagið er með ættartölu fyrir hunda án þess að það sé sett í lög, — ég kannast ekki við það — og Kattaræktarfélagið og mörg önnur atriði þar sem menn telja að skipti máli að einhver saga sé til staðar setja menn sér svona reglur sjálfir. Þetta gæti myndlistarmarkaðurinn að sjálfsögðu gert.

Ég vil benda á að það gæti verið að sumir menn mundu skirrast við að kaupa málverk mjög dýrum dómum og vera svo stimplaðir sem eigendur þeirra seinna meir. Þeir kæra sig kannski ekkert um að hafa verið eigendur að verki sem er óskaplega dýrt. Það er því ýmislegt sem mælir gegn þessu. Menn geta fengið málverk að gjöf og vilja kannski ekkert endilega gefa upp hver gaf þeim það þannig að mér finnst þetta vera inngrip inn í frelsi einstaklingsins, inngrip inn í rétt hans til að fara með eigur sínar og gera það sem hann vill við þær án þess að settar séu einhverjar skorður við því í lögum.