135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

vernd til handa fórnarlömbum mansals.

69. mál
[13:44]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Það fór fyrir hæstv. dómsmálaráðherra á svipaðan veg og í hans fyrra svari varðandi nálgunarbannið. Við fáum ekki að sjá neitt á spilin hjá hæstv. ráðherra um það hvort í frumvarpinu sem hann hyggst leggja fram verði þannig um hnútana búið að fórnarlömbum mansals standi til boða sú vernd sem gert er ráð fyrir í frumvarpi því sem vísað var til ríkisstjórnarinnar síðasta vor. Ég lýsi aftur yfir vonbrigðum með það að ég skuli ekki fá að heyra meira í hæstv. ráðherra um það hvers konar vernd við getum átt von á að verði lögð til í því frumvarpi sem verið er að vinna í ráðuneytinu.

Það er alveg ljóst og kom fram í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals að eitt af þeim vandamálum sem þarf að horfa til í þessum efnum er það að fórnarlömbin eru iðulega lögbrjótar sjálf. Við þurfum líka að horfa til þess að það er mjög erfitt í mjög mörgum tilfellum að fá þetta fólk til að vinna með lögreglu að því að upplýsa málin eða benda á glæpamennina. Í frumvarpi mínu hefur það ekki verið gert að skilyrði að viðkomandi fórnarlamb þurfi endilega að aðstoða lögreglu í því að koma upp um glæpamanninn. Ef hugmynd okkar nær fram að ganga yrði nefnd sett á laggirnar sem mundi meta ástand fórnarlambsins og möguleika viðkomandi á því að leggja lögreglu lið í þessum efnum og líka að meta sakaferil viðkomandi, hvort hann sé kannski með þeim hætti að hann sé bein afleiðing af því að viðkomandi er fórnarlamb. Hér er um afar flókið mál að ræða og við höfum í frumvarpinu útlistað mjög nákvæmlega á hvern hátt við Vinstri hreyfingin – grænt framboð viljum sjá að þessi fórnarlambavernd gangi í gildi og með hvaða hætti hún sé. Ég vona að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn átti sig á því að það eru þau útfærsluatriði sem þar er getið um sem skipta verulegu máli til þess að fórnarlambaverndin verði (Forseti hringir.) virkt tæki í höndum okkar.