135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

málefni lesblindra.

70. mál
[13:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um málefni lesblindra. Spurningin er tvíþætt. Í fyrra lagi spyr ég: Hvað líður störfum nefndar sem ráðherra skipaði í nóvember 2006 til að setja fram tillögur í þessum málaflokki og hvers væntir ráðherra af störfum nefndarinnar?

Í öðru lagi spyr ég: Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að lesblindir nemendur í grunn- og framhaldsskólum eigi kost á lesblinduleiðréttingu sér og foreldrum sínum að kostnaðarlausu?

Fyrri fyrirspurnin er sprottin upp úr fyrirspurn frá hæstv. viðskiptaráðherra, Björgvini G. Sigurðssyni, sem hann flutti á síðasta þingi þar sem hann spurði m.a. um fjölda og hlutfall barna með lesblindu í grunnskólum og hvort til stæði að endurskoða málið. Í svari hæstv. menntamálaráðherra kom fram að rúmlega 10% af börnum í grunn- og framhaldsskólum eigi við lesblindu að stríða. Jafnframt svaraði hæstv. ráðherra því til að hún hefði í nóvember 2006 skipað þá nefnd sem ég geri að umtalsefni til að setja fram þessar tillögur. Og ég spyr sem sagt hvað störfum þessarar nefndar líði.

Í annan stað er ég að spyrja um kostnað af lesblinduleiðréttingu sem mér sjálfum og foreldrum sem þekkja til og eiga lesblind börn eða barnabörn eða stjúpbörn finnst að eigi að vera sjálfsagður hluti af skólakerfinu, sjálfsagður, eðlilegur hluti af því. Skiptir þá ekki máli hvort það er leyst innan skólakerfisins eða utan en skólakerfið eigi frumkvæði að því. Það er mín skoðun að bæði grunnskólalögin og lögin um framhaldsskóla leggi þessa skyldu á yfirvöld menntamála í landinu.

Í 3. mgr. 2. gr. grunnskólalaga segir að grunnskólinn skuli „veita nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð“ o.s.frv. Þessir nemendur án lesblinduleiðréttingar eiga ekki kost á því sem grunnskólalögin mæla fyrir um að þau eigi kost á.

Hið sama segir í lögum um framhaldsskóla í markmiðslýsingu eða hlutverkalýsingu framhaldsskóla, að það eigi að stuðla að alhliða þroska nemenda. Og barn með lesblindugreiningu á þess ekki kost.

Ég vil taka það fram að lesblinda er náðargáfa. Börn með lesblindu skynja og skilja hluti með allt öðrum hætti en við sem ekki búum við þetta og takist að leiðrétta lesblinduna birtist þessi náðargáfa í snilligáfu viðkomandi barna.