135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

málefni lesblindra.

70. mál
[14:00]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þau orð sem hv. þm. Atli Gíslason lét falla hér í lokin um að hér sé í raun um náðargáfu að ræða. Ég var viðstödd á föstudaginn mjög athyglisverða ráðstefnu sem Fjölbrautaskóli Suðurnesja hélt um lesblindu í Fjölbrautaskólanum í Keflavík, í Reykjanesbæ. Ég sé að nokkrir brosa þegar mér verða á þessi mismæli. En þetta er nú einu sinni svona. Það sem hjartanu er kærast er tungunni tamast. Þar kom þetta einmitt mjög skýrt fram í máli fyrirlesara sem var frá Skotlandi. Hann undirstrikaði þetta sem hv. þingmaður var að segja. Þetta er náðargáfa. Þetta er ekki vandamál heldur er þetta viðfangsefni og þetta er viðfangsefni sem skólakerfið allt verður að taka á.

Ég get tekið líka undir með hv. þm. Bjarna Harðarsyni um að þegar við erum að huga að skólamálunum að vera kann að eitt og annað færist yfir á sveitarfélögin. En það eru líka aðrir hlutir sem eru að færast á kostnaði yfir á ríkið. Ég nefni í því tilfelli tónlistarkennslu. Ráðuneyti menntamála verður hins vegar að hafa í huga að það á ekki fyrst að hugsa um kostnaðarliðina heldur hvernig það geti sinnt þörfum nemendanna, sinnt þörfum nemenda út frá þeirra hæfni og þeirra þekkingu og þeirra þroska innan skólakerfisins. Síðan eftir á verða einfaldlega ríki og sveitarfélög að reyna að púsla í þann ramma hvernig við dreifum síðan kostnaðinum á milli. Við verðum fyrst að hugsa um mismunandi þarfir og breytileika einstaklinga innan skólakerfisins. Við erum að reyna meira en af veikum mætti að koma til móts við þarfir þeirra sem við ræðum akkúrat hér, fólks með mismunandi lesskilning og lestrarerfiðleika.

Ég bind því miklar vonir við að meðal annars því fjármagni verði vel varið sem við samþykktum á fjárlögum á þessu ári, árið 2007, og munum vonandi samþykkja á næsta fjárlagaári fyrir árið 2008, en ákveðnu fjármagni er sérstaklega beint í þann farveg að stuðla að því að efla úrræði og auka úrræði fyrir lesblinda (Forseti hringir.) nemendur í skólakerfinu.