135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

staða íslenskrar tungu.

77. mál
[14:10]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt að fagna sérstaklega þeirri fyrirspurn sem hv. þm. Ólöf Nordal færði hér fram til hæstv. menntmálaráðherra og einnig fagna því skýra svari sem hæstv. ráðherra veitti við spurningunni um það hvort eðlilegt væri að setja ákvæði í stjórnarskrá um íslenska tungu.

Það er nauðsynlegt líka í þessu samhengi að rifja upp að á þinginu 2003–2004 flutti Mörður Árnason ásamt þingmönnum úr öllum þingflokkum tillögu til þingsályktunar um að athuga réttarstöðu íslenskrar tungu. Sú þingsályktunartillaga var samþykkt, þ.e. á þann hátt að henni var vísað til ríkisstjórnarinnar í maímánuði árið 2004. Í raun hefur því komið fram ríkur vilji þingsins til þess að taka þetta mál föstum tökum. Það er því, eins og ég sagði áðan, alveg sérstakt fagnaðarefni að hæstv. ráðherra tekur svo skýrt til orða. Ég er viss um að ríkisstjórnin sem nú situr mun að sjálfsögðu tryggja það með aðstoð allra þingmanna, hvar í flokki sem þeir standa, að við náum því markmiði sem að er stefnt (Forseti hringir.) því að oft er þörf en nú er nauðsyn.