135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

staða íslenskrar tungu.

77. mál
[14:11]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð þeirra sem hafa hér fagnað fyrirspurn hv. þingmanns og svörum hæstv. ráðherra. Ég held að það sé brýn þörf á umræðu á þessum vettvangi um stöðu íslenskunnar sem og annars staðar í samfélaginu. Ég fagna auðvitað umræðu um lagasetningu til að tryggja réttarstöðu íslenskunnar en tel mig þó vita að slík lagasetning dugi ekki til. Hún dugar fyrst og fremst ekki til þess að tryggja að við höldum áfram að hugsa á íslensku og að íslenska haldi áfram að vera það gagnsæja tungumál sem við höfum búið að hér frá landnámi. Í því samhengi vil ég ekki aðeins minna á íslenskukennsluna fyrir innflytjendur sem er mikilvæg heldur móðurmálskennsluna. Við höfum verið að sjá tölur um að hér sé minni móðurmálskennsla í grunnskólunum en í sumum nágrannalanda okkar, Svíþjóð og Danmörku til dæmis, og ég held að þar skipti máli að skoða málin mjög gaumgæfilega, ekki síst í ljósi síminnkandi lestrar barna og ungmenna, sem er (Forseti hringir.) auðvitað lykillinn að framþróun málsins, (Forseti hringir.) íslenskunnar.