135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

staða íslenskrar tungu.

77. mál
[14:15]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega þakka fyrir umfjöllunarefnið hér er í dag. Ég tel þetta eitt af því brýnna sem þetta þing fjallar um, þ.e. sjálf tungan.

Ég sakna þess eiginlega að enginn hafi komið inn á þá umræðu hérna en undanfarnar vikur hefur verið lítils háttar umræða um hvort við getum tekið upp einhvers konar tvítyngi í stjórnsýslunni. Ég held að það sé hlutur sem við þurfum að ræða. Ég er ekki sannfærður um að píetisminn sé endilega það besta. Slíkt gæti líka orðið til þess að fyrirtæki væru þá skyldug til að nota íslenskuna líka, þau sem þegar hafa tekið upp ensku sem aðalmál.

Ég vil beina öðru sérstaklega til hæstv. menntamálaráðherra — ég heyrði áðan að hæstv. menntamálaráðherra hefur beint tilmælum til kvikmyndahúsanna og annarra varðandi nafngiftir kvikmynda — að sambærilegum tilmælum sé beint til fyrirtækjaeigenda þar sem það hefur verið plagsiður til margra áratuga, sá ósiður að fyrirtæki og verslanir heiti útlendum nöfnum sem sjálfsagt er að landstjórnin beiti sér gegn.