135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

staða íslenskrar tungu.

77. mál
[14:17]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir skýr svör. Það er rétt hjá henni og öðrum sem hafa talað að auðvitað er lagasetningin sjálf gagnvart íslenskunni ekki endilega grundvallaratriði en væri hins vegar mjög skýr skilaboð um það hvað okkur finnst um íslenskuna.

Það er þannig að íslensk tunga býr með okkur öllum. Við verðum öll að leggjast á eitt ef við ætlum að halda íslenskunni á þeim stalli sem hún er. Síðustu vikur og mánuði hafa menn talað dálítið óljóst um það hvað þeir vilji með íslenskuna og þá er ég ekki að tala um menntamálaráðherrann. Ég tala fyrst og fremst um það hvernig þetta hefur þróast á viðskiptamarkaði og víðar. Þess vegna finnst mér mikilvægt að heyra sjónarmið ráðherrans og fagna þeim sérstaklega.

Ég vil líka taka undir með öðrum hv. þingmönnum, sérstaklega hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, um lesturinn. Íslendingar lesa ekki nóg. Ég held að það sé mikið atriði til að viðhalda íslenskunni að við lesum og kennum börnunum okkur það. Því byrjum við á heima og getum bara gert heima.

En nú er það þannig að stór hluti þeirra sem búa á Íslandi og hefur flust hingað síðustu ár talar sama tungumálið. Sá hópur hefur ekki sérstaklega mikla þekkingu á enskri tungu þannig að það er á margan hátt vandasamt við þá að tala. Þess vegna er mikilvægt eins og hæstv. ráðherra hefur oft nefnt og ítrekar það í svari sínu að kenna því fólki sem ætlar að búa hér tungumálið íslensku. Hún er hluti af okkar landi og okkar lífi.

Að lokum vonast ég til þess að þingheimur sé mér og hæstv. menntamálaráðherra sammála um að íslenskan fái sinn sess í stjórnarskrá.