135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

staða íslenskrar tungu.

77. mál
[14:20]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég held að það sé nokkuð mikill samhljómur á Alþingi um að þetta ákvæði verði sett í stjórnarskrána. Ég dreg þá ályktun af umræðunni sem var góð um þessa fyrirspurn hv. þm. Ólafar Nordal. Ég held að það sé rétt sem hún m.a. kom inn á áðan, að við eigum að leggja mikla áherslu og mikinn þunga á íslenskukennslu fyrir útlendinga og þá sem vilja dveljast og búa á Íslandi. Við eigum í raun ekki að veita neinn afslátt af því. Við eigum að veita fólki tækifæri og veita fjármagn í það. Ég sé ekki betur, eins og ég gat um áðan, en að fyrirtækin séu að axla þessa ábyrgð, að reyna að miðla þessari kennslu og þeim námskeiðum sem á þarf að halda til fólksins, enda á það að vera að sjálfsögðu réttur okkar þegar við förum í blessuð bakaríin, eins og margir hafa verið að tala um, að fólk sem afgreiði okkur geti tjáð sig á íslensku. Ég veit að metnaður fyrirtækjanna stendur til þess að svo verði.

Hér hafa menn m.a. nefnt tvítyngi. Ég held að þrátt fyrir ágæta anga alþjóðavæðingarinnar þá eigum við ekki algerlega að sleppa okkur eða missa í alþjóðavæðingunni sem slíkri. Auðvitað er þjónustan í hinu íslenska stjórnkerfi oft og tíðum veitt á erlendum tungumálum, hvort sem það er á pólsku eða ensku. En að sjálfsögðu á það ekki að vera þannig að sú skylda verði lögð á íslenskt stjórnkerfi að tala annað tungumál en íslensku. Íslenska er málið, hún hefur verið málið, er málið og hún er okkar mál til framtíðar. Hún er það sem hefur gert okkur að þjóð og ef við ætlum að veita einhvern afslátt innan stjórnkerfisins með því að skylt verði að tala annað tungumál þá verðum fyrst illa á vegi stödd.