135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

14. mál
[14:51]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög ómerkileg athugasemd frá hv. þingmanni verð ég að segja. Þarna hefur hún fundið sér einhverja tylliástæðu til þess að halda stjórnarandstöðunni frá nefndum. Þarna viðurkenndi hún að í sinni tíð hefði hún haldið stjórnarandstöðunni frá nefndarsetum á vegum ráðuneytanna.

Vissulega hefur einhverjum nefndarmönnum verið skipt út frá því að ný ríkisstjórn tók við, annað væri óeðlilegt, og það varð ekki þverfótað fyrir framsóknarmönnum í nefndum á vegum ráðuneytanna. Vissulega er það áberandi þegar þessum fáu einstaklingum hefur verið skipt út sem hefur verið. Það er ekkert óeðlilegt að ný ríkisstjórn endurmanni nefndir á vegum hins opinbera.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð önnur en þau að það er augljóst að ég hef eitthvað komið við kaunin á hv. þingmanni, fyrrverandi ráðherra og núverandi varaformanni Framsóknarflokksins með athugasemdum mínum áðan sem kannski segir okkur að einhverju leyti að það hafi verið sannleikskorn í því sem ég sagði í ræðu minni.