135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

14. mál
[14:59]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég efast ekki um að þeir sem standa að þessari þingsályktunartillögu vilji veg atvinnulífsins sem mestan og bestan, ég held að það sé alveg á hreinu. Hins vegar efast ég um að þetta sé rétta leiðin til að efla íslenskt atvinnulíf að því leytinu til að ég held að númer eitt, tvö og þrjú sé málið að hafa skattkerfið einfalt og skatta lága.

Við höfum heyrt að það geti verið sniðug leið að efla einstaka málaflokka með því að veita skattaívilnanir. Menn hafa m.a. talað um að það mætti efla listir og menningu með því að veita fyrirtækjum sérstaka ívilnun við að styrkja menningu og listir. Jafnframt hafa menn talað um að efla mætti góðgerðamál á Íslandi með því að veita sérstakan afslátt þeim fyrirtækjum sem styrkja góðgerðamál. Við höfum líka heyrt að það væri sniðugt að taka upp sérstakan skattafslátt fyrir þá sem vilja búa úti á landi eða fyrirtæki sem vilja vera með starfsemi úti á landi og svo mætti lengi telja. Þetta er allt til þess fallið að flækja skattkerfið.

Af því að hér er minnst á Noreg í þessu sambandi hafa Norðmenn einmitt verið að endurskoða sitt kerfi vegna þess að þeim fannst það of opið hjá sér og að það virkaði í rauninni eins og botnlaus sjóður, þ.e. menn geta átt tvær leiðir til að efla sprotafyrirtæki, sjóðakerfið og skattafslætti. Mig langar að spyrja hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur hvort hún hafi engar áhyggjur af því að þetta verði misnotað eins og svo oft vill verða þegar við förum að flækja skattkerfið.