135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

14. mál
[15:03]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég efast um að málshefjandi, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, hafi reiknað með því að þessi tillaga mundi kalla fram umræðu um myrkrið í sálarkirnum Framsóknarflokksins en þetta er búin að vera afar áhugaverð umræða að fylgjast með. Ég ætla þó ekki að blanda mér í umræðu um eignarhald á hugmyndum heldur ræða um hugmyndina sjálfa, hver sem hana á, og um þá hugmynd í rauninni almennt að nýta skattkerfið á þennan hátt til að stuðla að nýsköpun og þróun í atvinnulífi, ekki síst til að efla lítil og meðalstór fyrirtæki, svokölluð sprotafyrirtæki sem byggja starfsemi sína á rannsóknum og þróun. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur margoft lýst áhuga sínum á að efla slíka starfsemi, telur þá þróun jákvæða fyrir atvinnulífið að gera Ísland að þekkingarsamfélagi og stíla þar fremur inn á hátækniiðnað. Það er vissulega rétt sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir kom inn á áðan að samkvæmt gögnum frá Samtökum iðnaðarins hefur orðið stopp í vexti hátækniiðnaðar hér á landi. Þar hefur verið bent á ýmsar skýringar, til að mynda áherslu á stóriðju sem hefur verið í atvinnulífinu undanfarin ár.

Annað sem tengist þessu máli, hvernig við getum stuðlað að vexti hátækniiðnaðar, er að þekkingarfyrirtæki eru í eðli sínu mjög lengi að byggja sig upp. Þetta er hægur vöxtur og við sjáum það ef við horfum á vaxtarlínurit eða vaxtarkúrfur allra þeirra hátæknifyrirtækja sem hér hafa starfað, hvort sem þau heita Marel eða Össur eða eitthvað annað, að vöxturinn er mjög hægur til að byrja með og tekur svo stökk eða ekki, því að þetta er auðvitað alltaf áhættuspil og vandi slíkra fyrirtækja hefur verið að fá það sem kallað er þolinmótt fjármagn á góðri íslensku, þ.e. fá fjármagn inn í reksturinn þar sem fólk er reiðubúið að bíða eftir því að starfsemin fari að skila arði. Að því leytinu til, út af eðli þessa atvinnurekstrar, tel ég mjög mikilvægt að við skoðum það með opnum huga hvort við getum á einhvern hátt nýtt skattkerfið til að stuðla að vexti í þessum atvinnugreinum þannig að mér þykir tillagan allrar athygli verð. Ég legg því til að hún verði tekin til ítarlegrar skoðunar í efnahags- og skattanefnd. Hins vegar held ég einnig að það sé jafnframt mikilvægt að við skoðum hana í samhengi við aðrar skattaívilnanir sem hafa verið til umræðu, hafa verið teknar upp — það er rétt að lagt hefur verið til að taka upp skattaívilnanir fyrir menningarstarfsemi, listir og annað slíkt — og skoða það mjög nákvæmlega hvernig við nýtum slíkar ívilnanir. Auðvitað snýst þetta um ákveðinn hugmyndafræðilegan mun, getum við sagt, hvort okkur þykir eðlilegt að nýta skattkerfið á þennan hátt til að hafa ákveðin áhrif á þróun atvinnulífs í landinu. Ég held að þessi þróun sé mjög jákvæð fyrir atvinnulífið, og ég tel að þetta sé eðlilegt framhald af þeirri aukningu í háskólamenntun sem orðið hefur í landinu, aukningu í rannsóknum og öðru. Ég tel að samhliða því að efla rannsóknarsjóði, samkeppnissjóði og þróunarsjóði eigum við að horfa á það hvernig við getum styrkt atvinnuhlið rannsóknanna, þekkingariðnaðinn, hvort sem það verður gert með skattaívilnunum eða styrkjum.

Ég ítreka að þessi tillaga er allrar athygli verð og að við skoðum hana með mjög opnum huga í efnahags- og skattanefnd.