135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

14. mál
[15:07]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Sá þingmaður er nú gengin úr salnum, sem nefndi áðan að hún hefði ekki átt von á að í þessari umræðu yrði varpað ljósi í myrkar sálarkirnur Framsóknarflokksins. Ég get upplýst hv. þingmann um að það er ekki myrkur í öllum framsóknarmönnum. Sumir hafa komið vel að góðum málum. Ég vil segja það alveg skýrt að ég tel að fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, núverandi hv. þingmaður, hafi gert margt ákaflega gott í þessum efnum. Eitt af því t.d. sem er arfleifð Framsóknarflokksins og síðustu ríkisstjórnar er sú breyting sem var gerð af Alþingi þar sem sameinaðar voru tvær stofnanir, rannsóknastofnanir í þágu atvinnuveganna, þ.e. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun í eina Nýsköpunarmiðstöð. Ég held að þau lög og sú stofnun, ef vel er með farið, geti reynst mikil lyftistöng undir nýsköpun á Íslandi og sprotafyrirtækin. Ég segi því alveg skýrt að ég held að Framsóknarflokkurinn hafi ekki alltaf verið svo illa upplýstur að hann hafi ekki stundum komi auga á einhver mál sem voru góð.

Ég tel hins vegar að núverandi ríkisstjórn hafi gengið töluvert framar en fyrri ríkisstjórn í áherslu sinni á þessi mál. Ég segi þetta ekki vegna þess að ég sé að forsóma þá tillögu sem hér liggur fyrir enda er alveg ljóst að hún er mjög í anda margs sem þessi ríkisstjórn er að gera. Þar sem í tillögunni er beinlínis lagt til að hæstv. fjármálaráðherra hefji nú þegar undirbúning að tiltekinni meðferð á kostnaði fyrirtækja vegna rannsókna þá er rétt að það komi fram að sú skoðun á því máli er þegar hafin í fjármálaráðuneytinu. Hæstv. fjármálaráðherra er því þarna eins og kannski oft áður a.m.k. spönn ef ekki heilli áln á undan Framsóknarflokknum og kann kannski engan að undra. Það er sem sagt til skoðunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar hvort heppilegt sé að fara þessa tilteknu leið sem mörgum finnst jákvæð. En þessi ríkisstjórn hefur líka með margvíslegum öðrum hætti tekið á málefnum nýsköpunar langt umfram það sem blessuðum Framsóknarflokknum tókst að gera á síðasta kjörtímabili.

Þessi ríkisstjórn telur nauðsynlegt að taka einmitt betur utan um þann enda nýsköpunar á Íslandi sem er svona í grennd eða nábýli við sprotafyrirtækin. Það hefur hún gert með því að lýsa því yfir að hún muni a.m.k. tvöfalda framlagið sem fer til þessara tveggja sjóða sem eru grundvallarsjóðir að því er varðar nýsköpun, þ.e. Rannsóknasjóður sem er undir hæstv. menntamálaráðherra og Tækniþróunarsjóður sem er hjá iðnaðarráðuneytinu. Ef hv. þingmenn Framsóknarflokksins gæfu sér tíma til þess úr önnum dagsins og innanflokkserjum að lesa fjárlagafrumvarpið sæju þeir t.d. að báðir þessir sjóðir, samkvæmt tillögu hæstv. fjármálaráðherra, njóta nú fimmtungshækkunar á næsta fjárlagaári. Ríkisstjórnin hefur því sýnt það í verki sem hún hefur sagt í orði. Það var ekki, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, alltaf hægt að segja um þinn góða flokk, þó að ég beri miklar vonir í brjósti um að að hv. þingmaður, sem gæðingsefni innan vébanda þess flokks, eigi kannski eftir að reynast þeim nýtilegri og notadrýgri en ýmsir þeir sem hafa vélað um þessi mál. Sömuleiðis er rétt að það komi hér fram, þó að hv. þm. Jón Magnússon hafi lagst gegn þeim góðu aðgerðum, að í hinum svokölluðu mótvægisaðgerðum, sem hv. þm. Jón Magnússon sagði, alveg þvert á það sem aðrir félagar hans í Frjálslynda flokknum sögðu, að væri sóun á peningum og mundi ýta undir þenslu — og geta menn bara lesið heimasíðu þessa ágæta þingmanns til að nema öll þau snilldaryrði sem hann setti þar á blað beinlínis í andstöðu við stefnu formanns síns — í þeim aðgerðum er lagt til að varið verði 800 millj. kr. á næstu þremur árum sem beinlínis eiga að stuðla að nýsköpun á landsbyggðinni alveg eins og þau ágætu lög sem flokkur hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar hafði forgöngu um að hér voru samþykkt um Nýsköpunarmiðstöðina.

Það liggur líka alveg ljóst fyrir að hafinn er annar óður núna í ranni Nýsköpunarsjóðs. Það eru ekki bara framsóknarfyrirtæki sem hann sinnir í dag. Hann átti auðvitað erfitt uppdráttar og er sjálfsagt að fella enga fjöður yfir það, staða hans núna er þannig að fjárhagslegt svigrými hans til að taka á þeim hugmyndum sem eru kannski komnar af því sviði sem Rannsóknasjóður og Tækniþróunarsjóður ná til er miklu betra en áður. Honum er ekki féskylft í dag, það er frekar að hann skorti verkefni. Umbúnaðurinn sem ríkisvaldið veitir þessum enda nýsköpunar er því töluvert hagstæðara og þar blása miklu gjöfulli vindar um skaut en áður. Sem betur fer er markaðsbresturinn að því er varðar þolinmótt fjármagn þegar nýsköpun er annars vegar ekki jafnátakanlegur og oft áður. Einkaframtakið, sem betur fer segi ég af því að ég er fjrálslyndur jafnaðarmaður eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, markaðurinn, er að koma miklu sterkar inn á þessu sviði. Við erum núna komin með fjárfestingarsjóði, jafnvel heil fjárfestingarfélög sem beinlínis hafa gert nýsköpun að andlagi sínu eins og Brú t.d. Það eru meira að segja komnir fram á sjónarsviðið þolinmóðir fjárfestendur, viðskiptaenglar, sem er eitt af því sem hefur skort á Íslandi. Ef við erum að velta því fyrir okkur með hvaða hætti við eigum að verja fjármagni hins opinbera til þess að styðja nýsköpun, þá er þetta ein leið sem hér kemur fram hjá Framsóknarflokknum sem er sannarlega meira en einnar messu virði að skoða.

Það eru aðrar leiðir og hugsanlega betri til að verja fjármagni með sama hætti. Ég vísa t.d. til reynslu Skota af formlegum samtökum viðskiptaengla sem leggja fram fé gegn því að ríkisvaldið leggi fram svipaða upphæð í sprotahugmyndir. Ef ríkisvaldið gerir það hefur það vissa tryggingu fyrir því að vel sé farið með það fé vegna þess að einkafjárfestir kemur líka að málinu. Hér á landi er vísir að þessu að þróast í gegnum Félag íslenskra stórkaupmanna þar sem heildsalar á eftirlaunum koma að þessu í vaxandi mæli með stórkostlegum hætti. Það kynni að vera betri leið. Og af því að hér er í salnum manneskjan sem bjó nánast til Háskólann í Reykjavík þá er stórkostlegt að sjá það hvernig innan Háskólans í Reykjavík er ekki bara búið að koma upp vísi að frumkvöðlanámi heldur heilli klakstöð þar sem hugmyndir eru teknar í fóstur alveg eins og gert var og er gert hjá Nýsköpunarmiðstöðinni. Þetta eru líka dæmi um það hvernig markaðurinn er í reynd að taka utan um þetta sem ríkið varð áður að gera og markaðsbresturinn er ekki jafnþungur og alvarlegur. Bara í þessum töluðu orðum og meðan við ræðum þetta mál er í gangi ráðstefna í Reykjavík þar sem 250 ungir námsmenn eru að ræða nýsköpun. Sem betur fer er margt jákvætt að gerast í þessum efnum. Ég fagna því hins vegar að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson er að stíga hér sín fyrstu skref og gerir það með jákvæðum hætti. Hann hefur a.m.k. móralskan stuðning iðnaðarráðherra.