135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007-2008.

5. mál
[15:26]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli þingmanna á því að merkilegt hefti var að koma í hólfin þeirra, hefti sem þeir ættu að kíkja á. Þar eru ýmsar gagnlegar upplýsingar sem ég kem kannski inn á í ræðu minni af og til.

Það mál sem ég mæli hér fyrir er um það hvað við þingmenn Frjálslynda flokksins teljum að þurfi að gera við þær aðstæður sem eru uppi í þjóðfélaginu. Eftir að hafa séð þær tillögur sem komið hafa frá ríkisstjórninni fram til þessa um mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar á þorskafla, eftir að hafa setið fjölmörg þing í landshlutunum um stöðuna sem þar er með sveitarstjórnarmönnum einstakra byggðarlaga og eftir að hafa farið um landið í sumar og rætt við mjög marga sem stunda fiskveiðar þá er það niðurstaða okkar, sem hér birtist, að leggja fram þingsályktunartillögu um að þorskaflinn á Íslandsmiðum á fiskveiðiárinu 2007/2008 verði aukinn.

Við teljum, í samræmi við þá stefnu sem við töluðum fyrir á síðastliðnu vori, að eigi muni af því veita að auka þorskaflann um 40 þús. tonn og að þeirri viðbót verði úthlutað til aflamarks og þorskaflamarks krókabáta sem verði hækkað sem nemur hlutdeild þeirra í 40 þús. tonna viðbótinni. Þannig verði sérstaklega tekist á við þann mikla vanda sem er til staðar í sjávarútvegsbyggðunum.

Það fylgir svohljóðandi greinargerð með þessari þingsályktunartillögu, með leyfi hæstv. forseta:

„Ástæður þess að þingmenn Frjálslynda flokksins leggja til að þorskaflinn á fiskveiðiárinu 2007/2008, 1. september 2007 til 31. ágúst 2008, verði aukinn eru margar. Verða þær helstu raktar hér í stuttu máli en nánar gerð grein fyrir þeim við umræðu málsins á Alþingi þegar málið kemst þar á dagskrá. Vonandi verður það sem fyrst í október svo að málið berist meðal annars til hagsmunasamtaka fyrir aðalfundi þeirra nú í haust og þau geti kynnt sér þau rök og umræður sem fram koma við 1. umr. málsins. Það er mikil nauðsyn nú að ræða rök og tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar (Hafró) ofan í kjölinn enda um vafasaman málstað að ræða.“ — Ég mun færa fyrir því rök í máli mínu.

Flutningsmenn telja að margt bendi til þess að uppvaxandi árgangar ungþorsks séu á Íslandsmiðum í meira mæli en gert er ráð fyrir í gögnum Hafró. Fjöldi skyndilokana. Á þessu ári hefur verið mikið um lokanir veiðisvæða vegna uppvaxandi þorsks sem er undir 55 sm að stærð, þ.e. tveggja, þriggja og fjögurra ára þorsks, og ekki er ólíklegt að skyndilokanir vegna ungþorsks geti orðið með mesta móti á þessu ári. Meðaltal skyndilokana vegna þorsks sl. tíu ár er um 60 lokanir ár hvert en árin 2000, 2001 og 2002 skera sig þar úr með 77–97 lokanir hvert ár.

Viðmiðunarárgangar svokallaðir þeirra ára, þ.e. áranna 2001 og 2002, árgangarnir frá 1997–2000, voru metnir af Hafrannsóknastofnun 170 millj. þriggja ára þorska, sem þriggja ára nýliðar inn í þorskstofninn. Þeir hafa verið áberandi í þorskveiðinni síðustu ár og hafa reyndar að stórum hluta borið hana uppi. Stóra spurningin er hvernig það megi vera að lokanir árið 2006, þ.e. á síðasta ári, hafi verið 86 vegna þorsks í uppvexti og að nú stefni í að þær verði 80–90 á árinu 2007, bæði árin langt yfir meðaltali, ef svo lítið er af uppvaxandi ungþorski eins og sagt er frá í skýrslu Hafrannsóknastofnunar frá síðasta vori. Um það má sjá í skýrslunni um nytjastofna fyrir árin 2006–2007 en þar má lesa um aflahorfur í fjölriti nr. 129, bls. 22 ef menn hafa þá skýrslu undir höndum eða vilja fletta upp á því síðar.

Það er hins vegar hægt að færa þær gleðilegu fréttir inn í þennan þingsal, hæstv. forseti, að skyndilokanir þessa árs eru nú þegar orðnar milli 150 og 160, 153 eða 154 þegar ég heyrði síðast sagt frá því í útvarpinu. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef eru skyndilokanir vegna þorsks nú þegar komnar yfir 80. Sumar skyndilokanirnar í þeirri tölu eru vegna lokunar á þorski eða ýsu, þ.e. það hefði lokast eftir hvorri reglunni sem var.

Þetta segir, hæstv. forseti, að skyndilokanir þessa árs stefna yfir 100 að óbreyttu. Þær hafa sem sagt ekki verið fleiri á þessum viðmiðunartíma sem ég hef farið hér yfir. Það þarf að fara mörg ár aftur í tímann til að finna slíkan fjölda skyndilokana vegna þorsks ef rétt mun verða spá mín um að þær fari yfir 100. Ég tel það mjög líklegt því að nú fer í hönd sú árstíð þegar hafið kólnar við strendurnar og þorskurinn leitar af grunnmiðunum niður á dýpið og verður þar af leiðandi meira inni í veiðinni.

Ég fór vítt og breitt um landið í sumar og ræddi við fiskimenn um það hvað þeim fyndist um það hvað væri að vaxa upp af ungviði á Íslandsmiðum. Svörin voru að ég hygg 95–99% á þá leið að ekki mætti fara upp fyrir 27–30 faðma án þess að lenda í eintómum smáfiski. Kerfið er þannig uppbyggt á Íslandsmiðum í dag að það eru allir að leita í stærri fisk, það er enginn að leita eftir því að vera í smáfiski. Þrátt fyrir það er staðan sú sem ég er að lýsa og henni verður ekkert á móti mælt, þetta eru staðreyndir af skyndilokunarkerfinu. Skyndilokunarkerfið byggir á því að loka miðum tímabundið í hálfan mánuð. Þessu kerfi var áður beitt í sjö daga en er nú almennt lokað í 14 daga við hverja mælingu sem fer yfir mörk og hér er miðað við fisk sem er undir 55 sm í stærð á þorski, sem sagt tveggja og upp í fjögurra ára fisk.

Þegar litið er til þess hvernig veiðunum er hagað hér á Íslandsmiðum verður ekki hægt að draga aðra ályktun af þessu en þá að mun meira er að vaxa upp af ungþorski en gert er ráð fyrir, það séu ekki 115 millj. þriggja ára nýliða, eins og Hafrannsóknastofnun gerir ráð fyrir, sem meðaltal af þeim árgöngum sem núna á að vera að vernda heldur sé talan hærri. Þegar lélegasta nýliðunin hefur verið á Íslandsmiðum hafa skyndilokanir farið niður í 8, niður í 16 þegar nánast ekkert varð vart við smáfisk á Íslandsmiðum. Þá fór oft um marga, bæði fiskimenn og aðra. Þetta er sem sagt staðreynd máls, hæstv. forseti, og þetta eru upplýsingar sem hefur bæst í frá því á vordögum þegar sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin ákváðu að skera þorskaflann niður í 130 þús. tonn.

Það vita allir að við höfum hlýsjó á Íslandsmiðum um þessar mundir og þar af leiðandi eru uppvaxtarskilyrði þorsksins góð svo framarlega sem hann hefur nóg æti. Ef menn keyra hins vegar fram með þann þorskkvóta sem núna á eftir að veiða á þessu fiskveiðiári og miða við þá reynslu sem er af skyndilokunum — þá geng ég út frá því að ekki sé verið að loka á draugafisk, það sé verið að loka á raunverulega veiði. Það er auðvitað þannig, það er verið að loka á raunverulega veiði. Aflabrögðin af smáfiski sýna okkur að það er mikið að vaxa upp, mun meira en gert er ráð fyrir í skýrslum Hafrannsóknastofnunar og er ég ekki þar með að fullyrða að þorskur á Íslandsmiðum sé að yfirfylla miðin eða að þau séu alveg yfirfull af þorski. Ég er einfaldlega að segja að rök fiskifræðinga í þessu máli fá ekki staðist þessa tímaskoðun skyndilokunarkerfisins.

Þessar upplýsingar hefur sjávarútvegsráðherra nú þegar undir höndum og ég vænti þess að hæstv. ráðherra muni á haustdögum taka mið af þeim upplýsingum sem hann hefur undir höndum og hafa bæst við eftir að hann tók þá ákvörðun sem ég hef talið ranga alla tíð, að skera aflann niður um yfir 60 þús. tonn.

Ef við lítum á þann sóknarvilja skipstjórnarmanna sem vissulega er til staðar, að sækja ævinlega í stærsta og besta fiskinn, sætir í raun undrun að við skulum fá upp allar skyndilokanir þessa árs. Þar sem komið er í ljós að mínu viti að við eigum von á betri innkomu árganganna sem eru að vaxa upp inn í veiðistofnana á næstu árum en gert er ráð fyrir má auðvitað spyrja sig: Hver yrði þá mesti ávinningur okkar á komandi árum? Hann yrði vissulega sá að þessi þorskur fengi nóg að éta á komandi mánuðum og missirum, það hlýtur að vera.

Ég bendi ykkur á, hv. þingmenn, töflu sem er aftast í þingskjalinu um samspil á meðalfallþunga þorsks annars vegar og stærð loðnustofnsins hins vegar. Ef menn skoða það sjá menn að þar er yfirlit yfir annars vegar meðalfallþunga þorsksins í 30 ár, það er efri taflan. Neðri taflan er stærð loðnustofnsins, annars vegar stærð veiðistofnsins og hins vegar heildarveiðin, súlurnar eru heildarveiði af loðnu en strikið er stærð veiðistofnsins. Ef menn líta á þetta sjá þeir væntanlega að það er beint samhengi á milli þess þegar fallþungi þorsksins fer niður fyrir meðaltal og þess að loðnustofninn er lítill, það er beint samhengi þar á milli.

Við sjáum líka að síðustu árin hefur við minnkandi loðnustofn fallþungi þorsksins fallið, þ.e. ef við orðum þetta bara eins og í sláturhúsi: Slátrunarstærð hvers einstaklings hefur minnkað. Ef við værum að tala um lömb værum við ekki að tala um 17 kíló heldur værum við að tala um 15 kíló svo að við setjum það í samhengi við landbúnaðinn. Þetta segir okkur auðvitað, hæstv. forseti, að þorskurinn hefur ekki fengið nægjanlegt æti á undanförnum árum og það voru löngu komnar fram vísbendingar um það. Allir íbúar við sjávarsíðuna norðan lands og sjómenn sáu fyrir nokkrum árum að svartfuglinn hafði ekki nægilegt að éta. Menn hafa líka séð það í lundastofni og kríustofni. Sjófuglinn hefur ekki haft nægt æti á undanförnum árum en sem betur fer lifnaði sandsílið, sem er ein aðalfæða sjófuglanna og líka þorsksins, seinni part sumars en mjög seint, tveimur mánuðum seinna en hefði verið í venjulegu árferði, þó þannig að sjófuglarnir sumir náðu að koma upp ungum sínum þó að ekki hefði varpið verið svipað og á árum áður, eins og sagt var.

Þetta gerir það hins vegar að verkum, hæstv. forseti, að ef skyndilokanirnar sýna réttan vöxt í uppvaxandi árgöngum fær fiskurinn væntanlega æti af sandsíli og við leggjum til í Frjálslynda flokknum að menn spari sér loðnuveiðina og veiði eingöngu loðnuna á komandi vertíð til manneldis, til frystingar, til hrognatöku o.s.frv. en spari sér bræðsluveiðarnar. Það teljum við, hæstv. forseti, að mundi gefa besta raun við að stækka þorskstofninn.

Nú eru fjöldamörg rök eftir sem ég hefði viljað fara yfir í ræðu minni en ég geri það í síðari ræðu, hæstv. forseti.