135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007-2008.

5. mál
[15:43]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það komu aðallega þrjár spurningar ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt, í fyrsta lagi um það hvað ætti að veiða mikið af loðnu.

Nú er það þannig, hæstv. forseti, að á hverju ári eru farnir sérstakir stofnmælingaleiðangrar til að mæla loðnustofninn. Það hefur verið gert á haustin undanfarin ár, hefur yfirleitt ekki tekist en tókst hins vegar að leggja mat á loðnu í Norðurhöfum fyrir þetta ár, uppvaxandi loðnu, og þar af leiðandi var áætlað hvað mætti veiða þegar í haust.

Sjávarútvegsráðherra tók hins vegar þá skynsamlegu ákvörðun að fresta loðnuveiðunum til 15. nóvember — ég tel að hann hefði alveg hiklaust átt að fresta þeim fram yfir áramót — þannig að talan sem hæstv. ráðherra vill fá og mun koma á borð ríkisstjórnarinnar mun væntanlega koma út úr stofnmælingu á stærð loðnustofnsins í janúar, hæstv. ráðherra, og ég get ekki svarað því betur.

Varðandi togararallið er það rétt sem hæstv. ráðherra vék að, ég hef gert athugasemd við togararallið, og fjöldamargir aðrir. Ég var einn af þeim á árunum 1984 og 1985 sem komu að hönnun þessa togararalls ásamt fjöldamörgum öðrum skipstjórnarmönnum vítt og breitt í kringum landið. Sex hópar voru settir á fót til þess að fjalla um útsetninguna. Okkur skipstjórnarmönnum var falið að setja út 50% af togstærðarfjöldanum og við völdum það eðlilega í samræmi við okkar veiðireynslu. Strax tveimur árum eftir að við tókum þátt í þessu gerðum við kröfu til þess að fá að velja upp á nýtt því að það væri ekkert gagn í að láta okkur velja einu sinni miðað við reynslu, við yrðum að fá að velja upp á nýtt miðað við reynslu. Þannig að ég er sammála því að það þurfi að skoða (Forseti hringir.) togararallið.