135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007-2008.

5. mál
[15:46]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þingmaður, ríkisstjórnin og Frjálslyndi flokkurinn erum sammála því að það eigi að skoða togararallið. Þess vegna erum við að setja 150 milljónir til þess.

Það sem ég er að segja varðandi þessa tillögu hv. þingmanna Frjálslynda flokksins er að hún byggir á ákaflega hæpnum grunni. Á annað borðið ráðast þeir á hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir að hafa skert þorskkvótann á yfirstandandi fiskveiðiári og þeir segja að það hafi verið óþarfi og þeir hafa talað með þeim hætti að það sé enginn háski í hafinu. Á hitt borðið viðurkenna þeir að staðan í hafinu sé ekki nógu góð vegna þess að þeir leggja sjálfir til að þorskaflinn verði skertur, bara ekki alveg eins mikið og hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur gert. Með þeirri tillögu eru þeir að viðurkenna í orði að það kunni að vera háskaleg staða á miðunum sem aftur ætti að leiða menn að þeirri niðurstöðu að það ætti ekki að taka neina áhættu en þeir ætla samt að taka áhættu og ég spyr: Á hvaða fiskifræðilegum forsendum?

Ég get alveg verið sammála þeim sem gagnrýna Hafrannsóknastofnun og ég hef gert það mörgum sinnum hérna. Ég var fyrr á árum einn af þeim sem trúðu bara nokkuð sterklega á vísindi hennar. Reynslan sýnir að menn geta ekki leyft sér þann munað. Hvað eiga menn þá að gera? Jú, þeir eiga auðvitað að reyna að treysta þessi vísindi en þeir mega ekki leika sér með fjöreggið. Við í ríkisstjórninni stóðum frammi fyrir þeirri ákvörðun að fara að tillögum flestra virtustu sérfræðinga hér á landi varðandi þetta eða að fara eftir einhverju sem mætti kalla tilfinningu. Við fórum hina vísindalegu leið og það var erfið ákvörðun og hæstv. sjávarútvegsráðherra á hrós skilið fyrir kjarkinn.

Nú kemur hins vegar Frjálslyndi flokkurinn og hann setur puttann upp í loftið og honum finnst að þetta eigi að vera svona eða hinsegin og hann ætlar að byggja framtíðarþróun þorskstofnsins á því. Ég er því einfaldlega ósammála. (Forseti hringir.) Ég held að hættan sem liggur í tölum Hafrannsóknastofnunar komi ekki fram í máli hv. þingmanna. Það eru allt aðrir váboðar sem þar rísa en þeir benda á.