135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007-2008.

5. mál
[15:48]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vona að hæstv. ráðherra, sem er nú mikill áhugamaður um fiskifræði, hafi þolinmæði til að sitja hér í þingsalnum í dag, hann skal fá svör við öllu því sem hann hefur spurt um. Ég skal taka hann í kennslustund sem hann fékk kannski ekki á háskólaárunum.

Það er talað hér um stuttan fisk. Ef þú kíkir á töfluna sem er aftast í þessu þingskjali sérðu, hv. þingmaður og hæstv. ráðherra, að það hefur verið lélegur vöxtur í þorskstofninum undanfarin sjö, átta ár miðað við meðaltal. Ég geri ráð fyrir því að ef fiskur hefur ekki nægjanlegt æti í mörg ár geti það komið þannig fram að hann verði styttri. (Gripið fram í.) Það er a.m.k. engin trygging fyrir því að Össur Skarphéðinsson hefði orðið stærri en hann er ef hann hefði ekki fengið mikið að éta í sjö ár. Ég tel bara mjög líklegt að ef langtímaæti vantar í hafið, eins og við höfum séð merki um — þeir sem á annað borð horfa á náttúruna (Gripið fram í.) og t.d. áttuðu sig á því að svartfuglinn fór að drepast fyrir fjórum, fimm árum síðan, þeir sem á annað borð nenna að lesa náttúruna, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) þeir skynja það auðvitað að það voru vísbendingar um að æti væri ekki til staðar og það hefur áhrif, til langs tíma hefur það áhrif.

Þú getur farið norður í Súgandafjörð og horft á þorskana sem þar eru í tjörn, þar sérðu akkúrat þetta fyrirbæri, þegar þorskurinn elst upp við aðstæður þar sem hann hefur ekki nægilegt að éta. Hann étur náttúrlega sjálfan sig en hann nær ekki góðum vexti fyrir það.

Hæstv. forseti. Ég mun svara hv. þingmanni skilmerkilega í ræðu minni síðar í dag.