135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

einkavæðing orkufyrirtækja.

[10:46]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Mér fannst ansi athyglisvert að hlusta á hv. þm. Birki Jón Jónsson, fyrrum formann fjárlaganefndar, fara yfir þetta mál og dósera hér um það að þingmenn ættu auðvitað að ræða og hefðu átt að ræða frekar um þetta mál þegar tekin var ákvörðun um að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja.

Hvernig var það? Hafði ekki hv. þingmaður tækifæri til þess á þeim tíma sem formaður fjárlaganefndar? Hvar var Framsóknarflokkurinn í þessu máli sem átti tvo ráðherra í sérstakri ráðherranefnd og tvo fulltrúa í einkavæðingarnefnd ríkisins þegar þessi ákvörðun var tekin? Svo kemur hv. þingmaður hér upp og talar um að menn þurfi að ræða málin betur.

Framsóknarflokkurinn var í lykilhlutverki í þessu máli við að taka ákvörðun um að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Það þýðir ekkert, í ljósi sögunnar, að koma hér upp og segja að menn eigi að ræða hlutina frekar. Hv. þingmaður og félagar hans í Framsóknarflokknum höfðu fullt tækifæri til þess að gera það á þeim tíma sem ákvörðunin var tekin. Svo kemur hv. þingmaður hér og veltir því fyrir sér hvernig borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins ætlar að haga sér í þessu máli. Fólk sem er ekki hér til andsvara.

Ég get bara sagt það við hv. þingmann að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins tók skynsamlega ákvörðun í síðustu viku um það að selja hlut Orkuveitu Reykjavíkur í fyrirtækinu REI. Á hverju byggir sú ákvörðun? Hún byggir á því að fulltrúar fólksins í borginni eiga ekki að stunda áhættufjárfestingar og spákaupmennsku fyrir reikning umbjóðenda sinna. Þeir sem eru á móti þessu sjónarmiði, eins og mér heyrist að hv. þingmaður sé, (Forseti hringir.) eru þeirrar skoðunar að við kjörnir fulltrúar (Forseti hringir.) fólksins í landinu eigum að stunda fjármálabrask á hlutabréfamarkaði fyrir reikning einhverra annarra. Við sjálfstæðismenn viljum ekki taka þátt í (Forseti hringir.) slíku þótt hv. þingmaður vilji gera það.