135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

einkavæðing orkufyrirtækja.

[10:49]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er nú eðlilegt að þetta sé rætt hér. Þannig er að ég barðist dálítið mikið fyrir því fyrir nokkrum árum að koma frumvarpi í gegnum þingið um ný raforkulög, ef einhvern skyldi reka minni til þess. Það voru nokkur róttæk lög og breyttu mjög miklu um allt raforkuumhverfið. Þau gengu út á það að skipta þessum þáttum upp í sérleyfisþætti og svo samkeppnisþætti.

Hvað varðar samkeppnina og þar með virkjanaréttinn þá erum við hreinlega ekki með hann í okkar hendi, Íslendingar, lengur. Það er búið að opna á það gagnvart öllu Evrópska efnahagssvæðinu að fyrirtæki geti komið hingað og einstaklingar og virkjað, svo framarlega sem þeir hafa farið í gegnum allt það ferli sem þarf að fara í gegnum til þess að slíkt sé mögulegt.

Mér finnst sumir ágætir þingmenn vera að rugla svolítið saman, leyfi ég mér að segja, þessu með auðlindirnar sjálfar. Hverjir eiga auðlindirnar? Það er tvennt til í því. Annaðhvort eru þær í eigu opinberra aðila, ríkisins, og flestallar auðlindir, flestar mikilvægustu auðlindir okkar eru í þjóðlendum og þar með í eigu ríkisins, en auðlindir geta líka verið í einkaeigu vegna þess að við höfum sett lög á Alþingi sem varða einkaeignarréttinn og því munum við ekki breyta nema með nýjum lögum.

Ég á eftir að sjá það, þrátt fyrir hinar digru yfirlýsingar samfylkingarmanna um að auðlindir eigi að vera í eigu almennings, ég á eftir að sjá að þeir nái samkomulagi við Sjálfstæðisflokkinn um að breyta lögunum frá 1998, auðlindalögunum. Menn verða að vera alveg klárir á því hvað þeir eru að tala um þegar þeir tala um auðlindir í eigu almennings, eins og hv. þm. Gunnar Svavarsson sagði áðan. Það hljómar óskaplega fallega en það er dálítið mikil aðgerð að fara í þá breytingu. Ég bíð ákaflega spennt eftir að sjá hvernig það muni ganga að ná samkomulagi við Sjálfstæðisflokkinn (Forseti hringir.) um það mál.