135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

einkavæðing orkufyrirtækja.

[10:53]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna sérstaklega yfirlýsingu hæstv. iðnaðarráðherra um að frumvarp sé á leiðinni þar sem farið verður yfir samkeppnismarkaði í veitufyrirtækjum sveitarfélaganna og sérleyfin. Ég fagna því alveg sérstaklega og tel það mjög mikilvægt miðað við þá þróun sem er að eiga sér stað í landinu og þann atgang allan. (Gripið fram í: Af hverju ...?)

Ég viðurkenni það auðvitað, hæstv. iðnaðarráðherra, að ég sat í ríkisstjórn á Alþingi þar sem samstaða var um að selja hlut í Hitaveitu Suðurnesja, 15%. Þegar það var gert hófst mikið ferðalag, kannski meira ferðalag en menn áttuðu sig á á þeim tíma. Þarna mynduðust hærri verð og meiri og sveitarfélögin sjálf fengu auðvitað gullglampa í augun til að losa sig við skuldir og bæta stöðu sína í gegnum þetta. Þar með er þessi mikla veitustofnun farin frá sveitarfélögunum að hluta til yfir á hinn almenna markað. Það er aftur á móti áhyggjuefni. Ég get alveg sagt sem svo hér að það er ekkert víst að ríkisstjórn mín á þeim tíma hafi verið að gera alveg réttan hlut. Við getum líka litið á það þegar Reykvíkingar og Akureyringar seldu sinn hlut í Landsvirkjun til ríkisins að þá var um það samið.

Það er öllum heimilt að vera vitrari í dag en þeir voru í gær. Við þurfum að fara yfir þessi mál. Mér finnast áhyggjur sveitarfélaganna í Suðurkjördæmi og þeirra sem eiga í Hitaveitu Suðurnesja og hafa af henni þjónustu, eðlilegar. Mér finnst mjög eðlilegt að ríkisstjórnin og sveitarstjórnarmenn á þessu svæði komi saman og fari yfir þessa nýju stöðu og meti hana út frá hagsmunum íbúa sinna. Við þurfum ekki í sjálfu sér að hafa mikið moldviðri um þetta, aðalatriðið er að finna farsæla lausn sem ég finn að hér vakir yfir þessu þingi. (Gripið fram í.)

Ég vil líka segja hér að það er skoðun mín að auðlindir háhitasvæðanna á Íslandi eigi að vera samfélagsleg eign Íslendinga. Það er enginn vafi að (Gripið fram í.) á hitaveitusvæðum á Suðurnesjum sem Hitaveita Suðurnesja á, eru miklar eignir í jörðum og fleiru. Ég segi því hér: Lækkum aðeins (Forseti hringir.) hávaðann í kringum málið og reynum að finna á því farsæla lausn sem allir aðilar sætta sig við.