135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

einkavæðing orkufyrirtækja.

[10:56]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ruglið í Ráðhúsi Reykjavíkur síðustu daga sýnir okkur svo ekki verður um villst að Alþingi Íslendinga hefur ekki unnið heimavinnuna sína. Við höfum ekki enn tryggt með lögum ótvírætt áframhaldandi eignarhald almennings á orkuauðlindum landsins og almenningseign á náttúrulegri einokun sem er í veitustarfsemi. Við þurfum að vinda bráðan bug að því vegna þess að annars stefnir hér í sams konar samfélagsdeilur um orkuauðlindirnar næstu árin og hafa skipt þjóðinni upp í fylkingar vegna auðlindanna í hafinu, um kvótakerfið og fiskinn í sjónum. Vegna þess að hér eru undir gríðarlegir hagsmunir, hér hafa orðið miklar breytingar á lagaumhverfinu og við höfum ekki enn sett lögin.

Ég bind vonir við að ríkisstjórnin muni vinna hratt að því máli og að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking geti í sameiningu tryggt bæði almannahagsmuni í auðlindunum og í veitustarfseminni en um leið skapað einkafyrirtækjum innkomu í orkuiðnaðinn til að nýta þá þekkingu sem þar er til útrásar.

Það er hins vegar í besta falli hlægilegt að heyra þingmenn Framsóknarflokksins, að hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni meðtöldum, fara mikinn um þessi mál, því það eru þeir sem síðustu 12 árin áttu að standa þessa vakt. Það eru þeir sem höfðu forustu um lagasetninguna í þessu umhverfi, Valgerður Sverrisdóttir hv. þingmaður, meðal annarra. Það er þó fagnaðarefni að formaður Framsóknarflokksins vilji vera gáfaðri í dag en í gær og við skulum vona að (Gripið fram í.) á morgun verði hann enn vitrari en í dag.