135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[11:13]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það vakti athygli mína að í frumvarpi til fjáraukalaga, sem er þó ætlað að draga í land yfirsjónir löggjafans eða framkvæmdarvaldsins gagnvart fjárlögum yfirstandandi árs, er eitt stærsta málið fjármál svokallaðrar Grímseyjarferju. Eina heimildin sem er á fjárlögum þessa árs er heimildin við 6. gr. sem hljóðar upp á það að selja Grímseyjarferjuna m/s Sæfara og ráðstafa andvirðinu til kaupa eða leigu á annarri hentugri ferju.

Nú skyldi maður ætla að verkið væri komið það langt og það hefði verið unnið á þessu ári og í fjárlögum er ekki áætlað neitt fjármagn til þessa verkefnis. Samt er verið að vinna í því á fullu. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvers vegna er áfram keyrt á heimild sem ráðherra gaf til að veita yfirdrátt til smíði ferjunnar? Er það í samræmi við fjárreiðulög? Og hvers vegna er ekki sótt um neyðarheimild til þess að greiða áfallinn kostnað við ferjubreytinguna á þessu ári? Hversu mikill kostnaður er nú þegar fallinn á ferjusmíðina og hver er áætlaður heildarkostnaður við hana þannig að fjárlaganefnd geti þá skoðað málið þegar það kemur til hennar?