135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[11:39]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst afar óviðkunnanlegt hvernig hv. þingmaður ræðir um þjóðhagsáætlunina og forsendur hennar, og talar um að hún sé illa unnin. Það getur vel verið að honum finnist sniðugt að tala um að fjármálaráðherra sé svo lélegur í þessu að hann vinni svona slæmar áætlanir. En hv. þingmaður og ég held allur þingheimur, og jafnvel miklu fleiri, vita að fjármálaráðherra sest ekkert niður og vinnur þjóðhagsáætlun. Það er skrifstofa með heilum hópi af hæfum hagfræðingum sem vinnur þjóðhagsáætlun og þar eru ekki lagðar neinar pólitískar forsendur um það hvernig meta eigi tekjuáætlanir.

Staðreyndin er sú að þessum ágætu hagfræðingum gengur bara ekkert verr, nema síður væri, en öðrum hagfræðingum sem stunda það að gera slíkar áætlanir, að láta þær síðan standast við raunveruleikann. Staðreyndin er hins vegar sú að raunveruleikinn er ekki alltaf í samræmi við áætlanir. Fólkið úti í bæ tekur sínar ákvarðanir alveg óháð því hvað hv. þingmaður vill eða hvað áætlanir segja. Þess vegna finnst mér það óréttmætt og rangt af hv. þingmanni á einhverjum misskildum forsendum — þegar hann heldur að hann sé að gera lítið úr fjármálaráðherranum þá er hann í raunveruleikanum að gera lítið úr fólki sem er að reyna að vinna sína vinnu af bestu samvisku. Það fer hv. þingmanni ekkert sérstaklega vel að vinna þannig og hann á ekki að gera það, því að hann veit betur og ég held að hann ætti alla vega í næsta andsvari, sem hann væntanlega fer í, að biðja þetta fólk afsökunar á því hvernig hann hefur talað til þess hér í dag.