135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[11:43]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Enn heldur þingmaðurinn áfram og talar niður til hagfræðinganna í fjármálaráðuneytinu. Efnahagsskrifstofa þingsins? Hverju ætli hún mundi bæta við það sem kemur frá fjármálaráðuneytinu, (Gripið fram í.) það sem kemur frá Seðlabankanum, það sem kemur frá IMF, það sem kemur frá OECD, það sem kemur frá hinum ýmsu greiningardeildum bankanna, hverju mundi hún bæta við? Mundi efnahagsskrifstofa þingsins ekki nota sömu hagtölurnar og allir þessir aðilar nota og fá frá Hagstofunni og eru bestu mælingar sem við höfum á þessu sviði? Hefðu þeir einhverjar aðrar tölur? Efnahagsskrifstofa þingsins mundi ekki bæta neinu úr um þetta.

Það er síðan annað mál hvort bæta megi aðstöðu þingmanna, það skal vera til skoðunar eins og lýst hefur verið yfir. Efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefur hins vegar boðið þingflokkunum að kynna fyrir þeim þjóðhagsáætlunina og ég geri ráð fyrir því að þar með muni fylgja samanburður á því hvernig áætlanir efnahagsskrifstofunnar eru og hvernig áætlanir annarra þeirra aðila sem ég nefndi eru. Þá sjáum við hvernig staða þessara mála er. Ef einhverjum dettur í hug að það eitt að bæta við enn einni skrifstofunni, enn einum aðilanum sem metur þetta, breyti einhverju er það í besta falli barnaskapur.