135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[12:08]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Virðulegi forseti. Við undirbúning að þessari umræðu fór ég sem nýliða sæmir að glugga í það sem forverar mínir höfðu sagt um þessi mál og hnaut þá strax mjög um langar og miklar ræður stjórnarandstöðunnar frá fyrri árum um það að breyta þyrfti vinnubrögðum varðandi fjárlagagerð og fjáraukalög. Ég ætla mér ekki þá ósanngirni að ætla hv. þm. Gunnari Svavarssyni að hafa þegar komið þessum breytingum í kring. Nógu mikil vinna hefur verið að setja sig inn í þetta fyrir nýja þingmenn. Mér þykir sjálfum nógu mikil vinna að vera í stjórnarandstöðu og veit ég að hans vinna er meiri. En ég kalla samt eftir því að menn lagfæri vinnubrögð og sé að margt í þeirri gagnrýni sem hefur verið sett fram á undanförnum árum er fyllilega réttmætt. Sú gagnrýni hefur m.a. komið frá flokksbræðrum hv. formanns fjárlaganefndar og bendi ég honum á að kynna sér hana.

Hér hefur verið rætt nokkuð um Grímseyjarferjumál. Við lestur fjáraukalaga datt mér í hug í barnaskap mínum að við lifðum hér í umhverfi þar sem menn tækju tilsögn, þar sem stjórnkerfið virkaði þannig að þegar eftirlitsstofnanir gera athugasemdir væri örlítið eftir því farið. Því hnaut ég um lið í fjáraukalagafrumvarpi á bls. 106 þar sem gert er ráð fyrir nokkur hundruð milljóna kr. fjárveitingu til ferjumála en við nánari athugun reyndist þetta vera Grímseyjarferju alfarið óviðkomandi.

Ég tel, herra forseti, allsendis óviðunandi að ekki sé gerð tilraun til að taka athugasemdir til greina með því að færa þó ekki sé nema þann sannanlega kostnað sem þegar er kominn fram vegna ferjunnar, til gjalda í fjáraukalagafrumvarpi. Raunar er þetta alfarið sambærilegt við það að á bls. 6 í núverandi fjáraukalögum er ein heimildargrein sem heimilar fjármálaráðherra að selja eignir ríkisins í Gunnarsholti, stóðhestastöðina, og verja andvirðinu til uppbyggingar á landsmótsaðstöðu á Gaddstaðaflötum. Ég vil vekja athygli á því, og einmitt í tengslum við umræðu sem var hér í gær, að það segir í fjáraukalagafrumvarpi, herra forseti, Gaddastaðaflötum en það er vitaskuld meinleg villa og það er mikilvægt að þingið og hið opinbera fari rétt með örnefni og við berum virðingu fyrir örnefnum landsins. Það verður hluti af mínum hætti hér að halda daglega helst uppi einhverju málsfarsnöldri eins og þessu en Gaddstaðaflatir og Gaddstaðir er auðvitað eitthvað sem dregið er af gaddi í hestum eða gaddi í veðri og er samstofna því en ekki neinu sem líkist gaddakylfu. Þetta þarf að laga í þessu frumvarpi.

Það sem ég ætlaði að minnast á í þessu sambandi er að sú heimildargrein sem er í fjáraukalögum núna gæti með sama hætti og heimildargreinin sem endursmíði Grímseyjarferju byggir á heimilað fjármálaráðherra og hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra að byggja alfarið upp landsmótsaðstöðuna á Gaddstaðaflötum. Auðvitað væri það bæði mér og hæstv. fjármálaráðherra mjög hugnanlegt að ríkið gerði þetta en við vitum að svo einfalt er það ekki að ríkið ætli að kosta þetta alfarið en þarna er einfaldlega sagt að það eigi að selja þessar eignir og verja andvirðinu til að byggja upp landsmótsaðstöðu. Ég er alls ekki að mótmæla þessu efnislega en ég er að mótmæla þeim skilningi að geta talið að þetta heimili síðan framkvæmdir eins og gert hefur verið í Grímseyjarferjumálinu.

Sama vandamál er vitanlega varðandi hinn mikla hallarekstur og hið mikla vandamál Landspítalans en það er þó sá munur á að þar hefur verið rætt um viðfangsefnið. Þar er skipuð nefnd til að taka það til umfjöllunar. Það hefði auðvitað verið æskilegt að einhver hluti af því sem enginn vafi er á að þarf að greiða hefði verið tekinn inn í fjáraukalög en það er ekki gert.

Að öðru leyti eru í rauninni engar stórar efnislegar athugasemdir sem ég hef fram að færa varðandi þessi fjáraukalög. Það er rétt sem hér hefur komið fram að í þeim er ekki mikil stefnumörkun, þau eru fyrst og fremst viðurkenning á því sem þegar er komið fram. Það sem er aftur á móti mikið umhugsunarefni eru þeir 70 milljarðar sem fundust í ríkiskassanum við endurmat á ríksreikningnum og koma fram í fjáraukalögum. Þessir 70 milljarðar og þessi góða staða ríkissjóðs hefur skapað mikla stemningu í hinni nýju ríkisstjórn. Það hefur svo sem lengi verið ákveðin Klondyke-stemmning í íslensku efnahagslífi og það er máli að linni. Í stað þess að ríkisstjórnin taki á efnahagsvandanum og átti sig á því að vandamálið er ekki það að lítils háttar hefur safnast fyrir í ríkissjóði heldur er vandamálið ofkeyrsla hagkerfisins þá ákveða ríkisstjórnarflokkarnir að koma fram með þenslufjárlagafrumvarp og þarf í rauninni að fara aftur fyrir tíma þjóðarsáttar til að finna jafnmikla aukningu ríkisútgjalda milli ára og nú er boðuð.

Að hluta til er þetta byggt á spádómum sem voru hér aðeins til umræðu í svörum og andsvörum milli hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Ég get alveg tekið undir með hæstv. fjármálaráðherra að ég held að efnahagsskrifstofa þingsins, jafnvel þótt þær væru þrjár, mundi litlu breyta um þetta ástand, mundi lítið laga stöðuna. Við sem sitjum í fjárlaganefnd höfum kynnst því á undanförnum dögum að það koma fram mjög margar og mismunandi spár um efnahagsástandið. Það sem ríkisstjórnin gerir er að velja eina þeirra, fjármálaráðuneytið gerir mat á þessum spám og gerir sína eigin út frá þessu og út frá henni eru ríkisútgjöldin ákveðin.

Herra forseti. Við getum einfaldlega aldrei lagt þá ábyrgð á sérfræðinga þjóðarinnar hvernig ástandið verður í hagkerfinu og þess vegna erum við kjörnir til þeirra starfa sem við gegnum hér. Það sem er lykilatriði að komi til viðbótar er hið pólitíska mat. Hið pólitíska mat segir okkur að þessar spár um gang efnahagslífsins eru allar vanáætlaðar og hafa verið það um mjög langt skeið. Það er ekkert sem bendir til að þar sé að verða stórfelld breyting á og fjáraukalögin koma í rauninni þessu máli við þannig að þau sanna það að enn og aftur eru spár hagfræðinga og sérfræðinga, sem vinna þær eftir bestu samvisku, ég ætla ekki að gagnrýna þá, ekki endanlegar, það þarf að leggja á þær pólitískt mat.

Þetta er alveg sami hlutur og við höfum rætt hér lítillega í sambandi við þorskstofninn, ég ætla ekki að fara út í það í smáatriðum en mundi gera það ef hér væri viðstaddur hæstv. byggðamálaráðherra vegna þess að honum hefur ekki gengið sem öðrum að skilja gildi þessa. Það er í rauninni ekkert undrunarefni í mínum huga að hv. þm. Jón Bjarnason og hæstv. byggðamálaráðherra skilji þetta svolítið öðruvísi. Þeir tímar voru að menn trúðu á vísindalega stjórnun samfélagsins og arfur af þeirri hugsun er víða í pólitískri hugsun samtímans að það sé einfaldlega hægt að reikna þetta allt út. (Gripið fram í: Með Byggðastofnun?) Byggðastofnun er ekki reiknistofnun eftir því sem ég best veit og kemur þessu máli ekki við. Þetta er ekki svo einfalt að við leggjum bara hina pólitísku ábyrgð og hagstjórnina alla í hendur hagfræðinga og segjum: Komið með vísindalega niðurstöðu.

Mitt helsta átrúnaðargoð í bókmenntum, Þórbergur heitinn Þórðarson, talar um þetta á einum stað, að þeir tímar muni koma að hér verði vísindaleg stjórnun á samfélaginu. Margir trúa á þetta enn, þeir eru farnir að trúa þessu í Brussel aftur núna. Það leysir ekki vandann að þrátta um það hér hvort spárnar séu réttar, það er ekki vandamálið varðandi fjárlagagerðina á Íslandi. Vandamálið er að það vantar kjark og raunsæi til að taka á efnahagsmálum. Það vantar þann kjark að leggja pólitískt mat á allar þessar spár, það þarf ekkert að horfa mjög lengi á þær og bera þær saman við það sem verið hefur undanfarin ár og ég held að allir hugsi það sama þegar þeir horfa á þessa spá: Þetta er vanáætlað, kreppan er ekkert að koma. Tilefni til að koma með kreppufjárlög er ekki fyrir hendi, herra forseti. Það er einfaldlega ekki þannig að við höfum leyfi til að keyra efnahagslífið upp með þeim hætti sem núverandi ríkisstjórn vill gera í kapp við einkageirann og í kapp við hið frjálsa efnahagslíf. Það er ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar.

Hitt skal ég fyrstur manna viðurkenna að þegar harðnar á dalnum þurfa stjórnvöld vissulega að grípa inn í, þá þurfa þau vissulega að vera tilbúin. Ég stóð sjálfur í kosningabaráttu minni margoft frammi fyrir þeirri spurningu frá kjósendum mínum og þeim sem kannski voru að hugsa um að kjósa mig og kannski hættu við að kjósa mig af því hvernig ég svaraði spurningunni: Á ekki að ráðast í stórfelldar vegaframkvæmdir, á ekki að gera þetta allt á næstu árum? Svar mitt var alltaf það sama, að það ætti ekki að ráðast í stórfelldar vegaframkvæmdir við núverandi aðstæður í efnahagslífi. Það ætti ekki að ráðast í stórfellda þenslu ríkisútgjalda við núverandi aðstæður í efnahagslífinu en ríkisstjórnin metur hlutina öðruvísi og hún gerir það með tvennt að leiðarljósi, ákveðna óskhyggju og ákveðna tegund af kjarkleysi. Kannski er það samstöðuleysi en það gerðist auðvitað í ríkisfjármálunum núna í nýrri ríkisstjórn að gullgrafaralyktin af þessum 72 milljörðum skiptir miklu máli í þessari mynd, þessir 72 milljarðar sem fundust á miðju sumri. Um það erum við hæstv. fjármálaráðherra sammála og höfum báðir sagt í þessum stól á síðustu dögum að það þarf sterk bein til að þola góða daga. Gulllyktin af þessum 72 milljörðum er einfaldlega svo sterk að það er ekki auðvelt fyrir nýskipaða ráðherra, fyrir menn sem eru nýsestir í fallega stóla að eiga að sitja á sér en það þurfa þeir bara að gera. Ef aðstæður breytast skyndilega til hins verra, ef skyndilega verður samdráttur þá gerist það samt ekki svo hratt að það sé ekki fært, með þeim forsendum sem eru í stjórnkerfinu, með nýjum fjárlögum. Það koma nefnilega alltaf aftur ný fjárlög. Mér finnst reyndar að hv. þingmenn átti sig ekki alveg á afstæði tímans, stundum tala menn eins og allt sé endanlegt. Þannig fáum við framsóknarmenn oft og einatt að heyra þá gagnrýni að við höfum ekki mikið um þetta að segja af því að við vorum í ríkisstjórn fyrir tæpu ári og af hverju við löguðum þetta ekki þá. Ef menn trúa því að allt sé svo endanlegt, spyr ég á móti: Af hverju var verið að kjósa eftir síðustu ríkisstjórn fyrst hún var svona góð? Var ekki bara búið að ákveða þetta allt saman?

Auðvitað þarf sífellt að taka á hlutunum, auðvitað er þetta sífellt viðfangsefni. En þegar við komum að stöðunni núna og berum saman þau fjárlög sem nú eru til umræðu og þau fjárlög sem hafa verið til umræðu undanfarin ár, segjum undanfarin 12 ár, þá eru fjárlögin og fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar núna alveg einstök, kannski vegna þess hve búið frá Framsóknarflokki er gott, frá samstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks svo öllu sé til skila haldið, og kannski vegna þess að samstaðan í ríkisstjórnunum tveimur, ríkisstjórn Samfylkingar og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, er ekki eins góð og vera ætti.

Ég er ekki viss um að þingið geri sér alltaf grein fyrir því hvað er svona alvarlegt við það að keyrt sé hratt í kapp við einkaframtakið, að keyrslunni sé haldið uppi með einkaframtakinu og þenslunni sé haldið uppi. Við höfum fregnir af því að í hverri viku sé verið að bera fátækt fólk út úr húsum sínum í Reykjavík. Við höfum fregnir af því að á Íslandi séu hæstu vextir í heimi. Allt eru þetta afleiðingar af of harðri keyrslu á efnahagslífinu. Það er langt í frá að það eina eftirsóknarverða í hagstjórn sé meiri og meiri hagvöxtur, það er ekki svo einfalt. Eitt það eftirsóknarverðasta í hagstjórn er jafnvægi. Fjáraukalagafrumvarpið sem nú er til umræðu sýnir okkur fullvel að hér hefur skort nokkuð á þetta jafnvægi en afleiðingarnar af þessum fjáraukalögum og þeim 72 milljörðum sem þar eru til staðar boða okkur að ríkisstjórnin ætlar að standa að enn meira ójafnvægi í hagkerfinu og af því hef ég áhyggjur, herra forseti.