135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[12:31]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka þau viðbrögð sem ég hef fengið hér og jákvæðar undirtektir formanns fjárlaganefndar. Varðandi ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, þá átta ég mig ekki alveg á hvernig mér ber að svara henni. Ég tók það fram í ræðu minni að ég gæfi þeim félögum, hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni og hv. formanni fjárlaganefndar, nokkurn frest til þess að móta hvernig þeir telji best að koma þessum hlutum í lag, enda hafa þeir ekki komið fram með fullmótaðar reglur um það og það væri afar ósanngjarnt að ætlast til þess af mönnum sem hófu þingmannsferil sinn fyrir fáum mánuðum.

Mér finnst óneitanlega að það gæti ekki sömu sanngirni á móti þar sem hv. varaformaður fjárlaganefndar ætlast til þess að ég leggi honum nú til þessar reglur allar fullmótaðar. Það er að vísu það sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru löngum vanir, að framsóknarmenn vinni fyrir þá verkin og leggi fyrir þá reglurnar og útbúi þetta fyrir þá. En þeir dagar ríkja ekki nú.

Hitt veldur mér meiri undrun og áhyggjum að hv. varaformaður fjárlaganefndar skyldi ekki geta tekið undir neitt í ræðu minni. Ég ræddi nokkuð um alvarleika þess að ríkisútgjöld væru þanin út og einnig um alvarleika þess að menn tryðu um of á áætlanabúskap. En þá er þess að gæta að Sjálfstæðisflokkurinn hefur löngum verið mjög rúm regnhlíf og þar hafa jafnvel rúmast menn sem trúa á áætlanabúskap og eru það nokkur tíðindi.