135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[12:56]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson er allt of góður og vandaður þingmaður til að verja tíma sínum í að festast í tuði og málalengingum, að ég segi ekki svartsýni. Hann á ekki að koma hingað til að tala niður góða hluti sem verið er að gera fyrir landsbyggðina. Ef maður legði þann mælikvarða sem hv. þingmaður leggur á orðið mótvægisaðgerðir á þá hluti sem hv. þingmaður hefur stundum sjálfur lagt til, þá má segja að ekki sé hægt að fara í neinar mótvægisaðgerðir. Það á hvort sem er að gera allt það sem nefnt er. Er það ekki til hagsbóta fyrir landsbyggðina t.d. að flýta uppbyggingu skólakerfisins?

Hv. þingmaður gerði lítið úr því að verið væri að setja fjármagn í að flýta stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Hvaðan kemur sú hugmynd? Hún kemur frá norðanmönnum. Ríkisstjórnin varð við óskum þeirra, þeir báðu sérstaklega um þetta.

Hv. þingmaður gerði lítið úr því að verið er að verja 50 millj. kr. á hverju ári næstu þrjú árin til að styrkja með rannsóknum umhverfi togararallsins. Hvaðan kom sú hugmynd? Frá þeim samtökum og þeirri stétt sem hv. þingmaður hefur, sem betur fer, varið obbanum af starfsævi sinni á þingi í að berjast fyrir, það er sjómönnum. Það voru sjómenn sem báðu um aukið fjármagn í hafrannsóknir. Í mótvægisaðgerðunum er að finna 500 millj. kr., ef allt er tekið til og líka það sem menn marka til þess þáttar í markáætlunum, í rannsóknapeningum framtíðarinnar, í hafrannsóknir. Svo kemur hv. þingmaður, fyrrv. forustumaður í samtökum sjómanna, og gerir lítið úr þessu. Úr hverju er hann þá að gera lítið? Úr sínu eigin fólki sem bað um þetta.

Það rann eins og rauður þráður í gegnum óskir sveitarfélaga að efla menntastigið, bæta samgöngur, auka fjarskipti og styrkja nýsköpun. Allt þetta er gert í þessum mótvægisaðgerðum. Svo kemur hv. þingmaður og gerir lítið úr því. Hvar eru tillögur Frjálslynda flokksins? Ég hef ekki enn séð þær nema eina sem ég tók þátt í lítilli umræðu um í gær.