135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[13:03]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú að leyfa mér að segja það að mér þykir leitt þegar hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson kemur hérna upp í ræðustól til að gera sig að fífli. (Gripið fram í.) Til að gera sig að fífli. Hvar ætlar hæstv. ráðherra að finna rök fyrir því að ég hafi verið að leggjast gegn öllu því sem hann taldi hér upp? Hvar ætlar hann að finna því rök í málflutningi mínum á undanförnum árum? (Gripið fram í.) Þetta er algjörlega ómaklegt af hæstv. ráðherra að tala með þeim hætti sem hann gerir hér.

Ég geri mér vel grein fyrir því að það er framþróun í öllum atvinnugreinum. Það breytir hins vegar ekki því að sjávarútvegurinn er undirstaða byggðanna í landinu og verður það væntanlega og vonandi um talsvert langa framtíð. Það er afar slæmt og erfitt að framkvæma það að reyna að byggja upp og efla byggðina með því að byrja á því að rífa frá henni atvinnutekjurnar. En það er það sem bæði kvótakerfið hefur gert og það sem síðasta tillaga hæstv. sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnarinnar um yfir 60 þús. tonna niðurskurð í þorski gerir.

Það hljóta allir að átta sig á því að það er miklu betra að reyna að efla nýjar atvinnugreinar þegar undirstaðan fær að vera til staðar heldur en að byrja á að rífa hana í burtu og fara svo að reyna að stoppa í götin.

Þetta vildi ég nú bara sagt hafa. Við Íslendingar höfum alltaf þurft að byggja á hvikulum sjávarafla. Hann hefur alltaf verið breytilegur. En hann hefur aldrei verið jafnbreytilegur og hann er boðaður núna. Það þarf nefnilega að fara aftur í frostaveturinn 1918 til að finna sambærilegan þorskafla sem boðað er að veiða megi á þessu fiskveiðiári og því næsta væntanlega líka. (Gripið fram í.) Þannig er það. Menn eiga ekki bara að sjá frostið fram undan.