135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[13:05]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það virðist gæta einhvers misskilnings varðandi 6. gr. heimildina, að það séu einhverjir óútfylltir tékkar og hvað eina. Til þess að hægt sé að nýta 6. gr. heimild á tilteknu fjárlagaári verður auðvitað að gera ráð fyrir fjármunum til þess verkefnis sem um er fjallað í greininni í fjárlögunum sjálfum. Það getur annars vegar verið gert í sérstakri grein sem veitir fjármuni til heimildagreina eða þá í öðrum þeim fjárheimildum sem tilheyra þeim verkefnum sem verið er að fjalla um í 6. gr.

Í þriðja lagi er síðan um það að ræða að verið sé að heimila framtíðarskuldbindingar. Þá verður auðvitað að áætla fyrir þeim í fjárlögum síðari ára. Þær verða þá auðvitað líka að vera í samræmi við fjárreiðulögin en þar er einmitt fjallað um það hvernig eigi að standa að því að skuldbinda ríkissjóð fram í tímann. Þar eru meira að segja heimildir til ráðherra til þess að gera það án atbeina Alþingis ef um fjárlagaliði er að ræða. Ég held að það hafi ekkert mál verið eins vel kynnt í gegnum 6. gr. og málefni Austurhafnar.

En hins vegar er umfjöllunin um heilbrigðisþjónustu 6. gr. sem hv. þingmaður vitnaði til bara að verða brandari haustsins, held ég, því hún er búin að vera í fjárlögum frá því árið 2000 og afskaplega lítið notuð en kom upp vegna samninga sem Krabbameinsfélagið var að gera. Þetta er alls ekki grein sem er ætluð til að útvista verkefnum heldur snýst hún um rannsóknir í heilbrigðiskerfinu. Ég man eiginlega ekki eftir því að hún hafi verið nýtt í annað (Forseti hringir.) en hjá Krabbameinsfélaginu, þó að ég þori ekki alveg að lofa því.