135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

staðan í sjávarútvegi, kjör sjómanna og fiskvinnslufólks.

[13:31]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Fyrir sléttum einum mánuði tilkynnti ríkisstjórnin um aðgerðir sem hún hygðist grípa til til að sporna gegn neikvæðum áhrifum af fiskveiðióstjórninni. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá þeim tíma segir um framtíðarhorfurnar í sjávarútvegi:

„Ekki er líklegt að til fjöldaatvinnuleysis komi neins staðar á næstu mánuðum, hvorki hjá sjómönnum né landverkafólki. Mörg fyrirtæki munu bíða fram yfir áramót með að sjá til hvernig málin þróast.“ — Það mun ekki koma til fjöldaatvinnuleysis á næstu mánuðum.

Þetta var yfirlýsing frá ríkisstjórninni sem birt var fyrir sléttum mánuði, þann 12. september sl. En hver er þá staðan í dag? Hefur þessi framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar ræst, nú þegar mánuður er liðinn frá því að henni var varpað fram? Hver fiskvinnslan af annarri hefur þegar gripið til fjöldauppsagna og síðast í gær bárust fréttir af uppsögnum í fiskvinnslu á Austfjörðum og á Eyjafjarðarsvæðinu og þar var tilkynnt um að útgerðin væri að leggja upp laupana sökum samdráttar í veiðiheimildum. Fjórðungur fiskverkafólks á Vestfjörðum hefur misst vinnuna og stór hluti þeirra sem eftir eru óttast atvinnuleysi.

Starfsfólk í sjávarútvegi, sjómenn og fiskverkafólk, veit ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér hvað varðar atvinnu þess og framtíðarhorfur mánuði eftir að ríkisstjórnin taldi afar ólíklegt að til fjöldauppsagna kæmi. Staðreyndin er önnur og fjöldauppsagnir dynja yfir í greininni bæði til sjós og lands. Hverjar telur sjávarútvegsráðherra nú vera framtíðarhorfurnar í sjávarútveginum, mánuði eftir síðustu spá? Ég er ekki að fara fram á neina langtímaspá. Vika til hálfur mánuður dugar til að reyna að sjá aðeins fram í tímann.

Sjómenn eru sú stétt fólks sem fór verst út úr niðurskurðinum í þorskkvótanum síðasta sumar og staða sjómannastéttanna hefur líklega aldrei verið lakari en hún er einmitt í dag hvað varðar starfsöryggi og framtíðarhorfur. Það þarf enga spámenn til að sjá það fyrir.

Nú er þannig komið fyrir íslenskri togaraútgerð að verulegir erfiðleikar eru við að manna skipin og koma þeim á sjó. Bátaútgerðin á við sama vanda að stríða og mörg dæmi eru um að skip hafi ekki komist til veiða af þessum sökum. Útgerðir eru byrjaðar að yfirborga menn til að fá þá til skips, fast kaup á hvern úthaldsdag, en það dugar varla til. Og hverjir þrífast best í slíkum jarðvegi sem búið er að plægja í sjávarútveginum, hverjir mæta þá til leiks? Jú, það eru íslensku þrælahaldararnir sem eru mættir á kajann, bjóða þræla sína fala í hásetapláss á skipum sem illa gengur að manna. Upp á síðkastið hafa nefnilega borist fréttir af því að erlent fólk sem narrað hefur verið til landsins með loforðum um gull og græna skóga sé starfandi um borð í íslenskum fiskiskipum á kjörum — það er rökstuddur grunur um það — sem eru ekki samboðin nokkrum einasta manni, á föstu kaupi þar sem á að vera hlutur o.s.frv. Þetta er sá jarðvegur sem er orðinn til í þessari grein í dag.

Fyrir þinginu liggur nú frumvarp sjávarútvegsráðherra um afnot veiðigjalds á þorski vegna niðurskurðarins, eins og segir í frumvarpinu, til að „koma til móts við þær útgerðir sem verða fyrir skerðingu veiðiheimilda vegna niðurskurðar aflamarks í þorski“. Ég vil rifja upp í leiðinni að það er ekki langt síðan ríkisstjórnin setti líka Byggðastofnun í sérstaka viðbragðsstöðu til að bregðast við erfiðleikum í sjávarútvegi og biðlað er til bankastofnana og annarra lánastofnana að sýna útgerðinni góðvild og umburðarlyndi af sömu ástæðu. Allt er þetta gott og gilt og ég ætla ekki að setja mig upp á móti því eða gera verulegar athugasemdir við.

Hitt vil ég minna á að tekjur sjómanna taka mið af tekjum útgerðar, aflaverðmætinu sem hlutur sjómanna er reiknaður af. Sjómenn verða því að sjálfsögðu fyrir hlutfallslega sömu tekjuskerðingu og útgerðin í landinu. Hásetahlutur á skipi sem veiddi 1.000 tonn af þorski á síðasta ári skerðist um nærri milljón á yfirstandandi fiskveiðiári. Hásetahlutur á skipi sem veiddi 1.500 tonn af þorski á síðasta fiskveiðiári skerðist um eina og hálfa milljón og það munar um slíkt í heimilisbókhaldinu ofan í 25–30% skerðingu vegna gengisskráningar og sterkrar stöðu krónunnar.

Þorskveiðar bera uppi tekjur útgerðar og sjómanna. Svo einfalt er það nú. Þetta eru þær staðreyndir sem blasa við okkur í dag. Er sjávarútvegsráðherra kannski með sambærilegt frumvarp í smíðum sem á að milda það áfall sem sjómenn urðu fyrir líkt því sem liggur fyrir þingi varðandi útgerðirnar? Hafa opinberar lánastofnanir verið settar í viðbragðsstöðu vegna yfirvofandi tekjutaps fólks til sjós og lands og hafa ráðherrar kannski biðlað til lánastofnana um að sýna því skilning og blíðu þegar að skuldadögum kemur? Það er ekkert slíkt í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar enda snúast þær ekki um sjávarútvegsmál.

Forseti. Staðan í sjávarútveginum er alvarlegri en flesta grunar. Greinin hefur aldrei áður staðið frammi fyrir jafnalvarlegu ástandi og í dag. Og hvað ætlar þessi frjálslynda umbótastjórn að gera í þeim málum? Ætla nýir ráðherrar Samfylkingar að stilla sér upp í varnarvegginn með kvótaliðunum, urra þar og gelta á alla þá sem krefjast breytinga (Forseti hringir.) eða ætla þeir að standa við stóru orðin frá því fyrir kosningar? Ég kalla eftir svörum frá Samfylkingunni (Forseti hringir.) um þessi mál og ég kalla eftir svörum frá ráðherra: Er ætlunin að grípa til aðgerða (Forseti hringir.) til aðstoðar sjómönnum og fiskverkafólki, þá hvaða aðgerða og (Forseti hringir.) hvenær megum við eiga von á þeim?