135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

staðan í sjávarútvegi, kjör sjómanna og fiskvinnslufólks.

[13:42]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu þó að vissulega sé erfitt á tveimur mínútum að ná yfir svo stórt mál sem sjávarútvegurinn er og staða sjómanna og fiskverkafólks. En ég þakka málshefjanda.

Sjávarútvegurinn er mikilvæg atvinnugrein þó að vissulega hafi dregið úr mikilvægi sjávarútvegs á síðustu árum og jafnvel áratugum vegna nýrra greina, en ég segi: Sjávarútvegurinn er mjög mikilvæg atvinnugrein. Eins og ég hef komið að áður hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagt að gengið sé 15–25% of hátt skráð. Þetta kemur mjög við útgerðina og ekki bara útgerðina heldur náttúrlega sjómennina líka vegna þess fyrirkomulags sem hér ríkir. Niðurskurður á aflaheimildum er hér kannski hvað helst til umræðu og þær mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin greip til. Ég held því fram að þær hafi því miður ekki náð nægilega vel til þeirra hópa sem skyldi og þá erum við að tala um sjómenn og fiskverkafólk. Eins vil ég segja að þær hafi ekki náð nægilega vel til þeirra svæða þar sem t.d. ég þekki best til, þar sem niðurskurðurinn er mestur, í Norðausturkjördæmi, svo langmestur.

Hvað varðar þessar aðgerðir og niðurstöður ríkisstjórnarinnar í þeim efnum er Norðausturkjördæmið varla á blaði og þetta gagnrýni ég. Við framsóknarmenn komum með okkar eigin tillögur sem við höfum lagt fram sem ganga út á það að ríkið í samstarfi við sjómenn og fiskverkafólk gefi þeim sem annars mundu missa vinnuna tímabundið vegna skerðingar á þorskkvóta tækifæri til að afla sér menntunar og þjálfunar í allt að fjórar vikur á launum sem tækju mið (Forseti hringir.) af launum þeirra síðustu tvö árin. Þessar tillögur kallaði forsætisráðherra sjóðasukk eða eitthvað þvílíkt og ég (Forseti hringir.) harma það.