135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

staðan í sjávarútvegi, kjör sjómanna og fiskvinnslufólks.

[13:45]
Hlusta

Guðmundur Steingrímsson (Sf):

Frú forseti. Eins og aðrir sem hafa tekið þátt í þessari umræðu hingað til fagna ég henni auðvitað, þetta er mikilvægt málefni og varðar líka ákveðið grundvallaratriði. Við þekkjum það, Íslendingar, af margra alda reynslu að við búum við atvinnuvegi sem eru sveiflukenndir og núna horfumst við í augu við það að við þurfum að taka mikla niðursveiflu í sjávarútvegi. Við höfum líka horft upp á þetta í öðrum atvinnugreinum, við höfum horft upp á það að bændum hefur fækkað á Íslandi svo dæmi sé tekið. Við horfum líka upp á það að fólk sem vinnur við sjávarútveginn býr við sveiflur af öðrum orsökum en þeim að við þurfum að skera niður þorskafla, það eru ýmsar tækninýjungar í sjávarútvegi sem t.d. leiða til þess að það þarf færra fólk í vinnu svo dæmi sé tekið. Ekki viljum við banna tækninýjungar þannig að við þurfum auðvitað að hafa einhvers konar heildarstefnu og einhvers konar heildarhugmyndafræði um það hvernig við búum einfaldlega á Íslandi undir þessum kringumstæðum.

Nú liggur það sem sagt fyrir að við þurfum að skera verulega niður í þorskafla. Hvernig hefur ríkisstjórnin ákveðið að mæta því? Hún ákveður að reyna eftir fremsta megni að auka fjölbreytni í atvinnulífinu, takmarkið er að skapa ný störf á landsbyggðinni. Þetta gerum við með því að efla grunngerðina, efla menntun, nýsköpun, fjarskipti og samgöngur. Á síðasta þingi var samþykkt tillaga að okkar frumkvæði sem hét Störf án staðsetningar.

Auðvitað getur stjórnarandstaðan tekið hvern lið fyrir sig og sagt að hann geri ekkert fyrir sjómenn sérstaklega en þegar við horfum á allar þessar aðgerðir saman eru þær til þess fallnar að gera þjóðfélagið betur í stakk búið til að mæta áföllum eins og þessum. (Forseti hringir.) Það er langtímahugsunin.

Að síðustu, niðurskurðurinn á þorskkvóta er ekkert annað en (Forseti hringir.) fjárfesting í fiskstofnunum til framtíðar sem auðvitað ætti síðan að gagnast fiskverkafólki og sjómönnum.