135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

staðan í sjávarútvegi, kjör sjómanna og fiskvinnslufólks.

[13:47]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Hetjur hafsins og hermenn þjóðarinnar hafa orðið eftir ásamt fiskvinnslufólki í þeim mótvægisaðgerðum sem gerðar hafa verið. Það er ekki komið til móts við þetta fólk og það þarf öllum alþingismönnum í þessum sal að vera ljóst. Það er á það hallað í þessu, aðrir njóta góðs af þessum aðgerðum sem eru sumar til langframa og geta skilað sér eftir mörg ár en fæst af því sem lagt er til kemur til þess fólks sem þarf á því að halda. Það er ömurlegt til þess að vita að það eina sem stjórnarflokkarnir ætla að gera er að skipa nefnd til að skoða stöðu sjávarbyggðanna. Það er ömurlegt að þetta skuli vera tillögur þeirra í sjávarútvegsmálum. Það er sorglegt þegar það fólk sem situr á Alþingi áttar sig ekki á því hver staðan er.

Að setja allan fiskinn á fiskmarkað er mótvægisaðgerð sem dugar og hjálpar til. Það þarf ekki að telja upp alla þá kosti sem því fylgir að gera það. Að setja allan fiskinn á fiskmarkað er alvörumótvægisaðgerð. Það er löngu tímabært að menn átti sig á í hvað stefnir með þessi mál og það þarf ekki að skipa nefndir. Það þarf að framkvæma hlutina, það tryggir afkomu fólks sem verður fyrir skerðingum af þorskniðurskurðinum. Ég hvet menn til að endurskoða það sem þeir hafa lagt til.