135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

staðan í sjávarútvegi, kjör sjómanna og fiskvinnslufólks.

[13:49]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni fyrir að efna til þessarar mikilvægu umræðu. Á undanförnum árum hefur þjóðfélagsumræðan í allt of litlum mæli beinst til sjómanna og fiskvinnslufólks. Þjóðfélagið hefur verið uppteknara af milljarðamæringunum, hvernig þeim líður, og margir eru farnir að trúa því og treysta á að þeir komi til með að afla okkur bjargar í bú á komandi tíð. Það hefur verið, eins og við þekkjum, nánast heilög kennisetning hjá Sjálfstæðisflokknum að ekki megi skerða hár á höfði þessa fólks, ríka fólksins. Því hefur verið veittur skattafsláttur og hvers kyns ívilnanir á ívilnanir ofan. Minni áhyggjur hafa stjórnvöld haft af þeim atvinnuvegum sem hafa um árhundruð verið undirstöðuatvinnuvegir á Íslandi, landbúnaði og sjávarútvegi.

Við stefnuræðu forsætisráðherra í þingbyrjun sagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að betur hefði verið hlustað á þær tillögur sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur sett hér fram á nánast hverju þingi frá því að flokkurinn varð til um atvinnumál og byggðamálin. Hann sagði jafnframt að við þær aðstæður sem við búum við nú, stórfelldan niðurskurð á fiskkvóta, verði að horfast í augu við vandann í víðu samhengi og við yrðum að viðurkenna að fiskveiðistjórnarkerfið sem við höfum búið við hefur brugðist, það hefur ekki skilað þeim árangri sem margir ætluðu.

Aðalsteinn Baldursson, sem er í forsvari fyrir fiskvinnslufólk á Íslandi, (Forseti hringir.) sagði í mín eyru að þessi tónn frá VG væri hárréttur. En ég spyr: Hvers vegna hefur ekki verið hlustað á fiskvinnslufólkið? (Forseti hringir.) Hvers vegna hefur ekki verið hlustað á forustu sjómanna (Forseti hringir.) sem fullyrðir nú að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin kallar mótvægisaðgerðir komi ekki þeim til góða? (Forseti hringir.)