135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

staðan í sjávarútvegi, kjör sjómanna og fiskvinnslufólks.

[13:54]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Já, staðan og útlitið sem nú er uppi eftir skerðingu á þorskkvótanum er sannarlega mjög alvarlegt. Hún snertir sjávarbyggðirnar, fólkið í sjávarútveginum, þjónustugreinar og sveitarfélögin. Ég verð að viðurkenna að ég óttast að afleiðingarnar verði mjög slæmar í mörgum byggðarlögum landsins. Það þrengir mjög að mörgum sjávarútvegsfyrirtækjum og afkoma margra þeirra er í hættu. Margar minni útgerðir og fiskvinnslufyrirtæki standa illa að vígi en hins vegar eru mörg þeirra stærri betur stödd hvað varðar afkomu en þau þurfa náttúrlega að ganga í gegnum ákveðna hagræðingu sem hefur áhrif.

Það er margt í þessu máli, hæstv. forseti. Mér barst áðan í hendurnar bréf frá Strandabyggð þar sem mótmælt er skerðingu á rækjubótum sem kemur í kjölfar þessarar þorskaflaheimildarskerðingar. Þar er vitnað til loforða hæstv. sjávarútvegsráðherra um að þetta yrði ekki gert og þar er fjallað um að væntanlega muni rekstrargrundvöllur bresta undan mörgum útgerðum. Ég beini því til hæstv. sjávarútvegsráðherra hvernig hann muni bregðast við slíku ákalli frá þessu sveitarfélagi og svo mörgum öðrum.

Virðulegi forseti. Útlitið er ekki gott í sjávarbyggðunum og því miður er það mín skoðun að svokallaðar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar muni ekki duga til að halda uppi lífskjörum þess fólks sem hér um ræðir, því miður. Ég óttast að víða muni eitthvað láta undan og að veruleg byggðaröskun sé í sjónmáli. Það er auðvitað ekki ánægjulegt að þurfa að tala svona en þetta er þó það sem ég tel að blasi við, því miður. Ég tek undir með hv. málshefjanda, ég held að útlitið og staðan sé mun alvarlegri en mjög margir gera sér grein fyrir, því miður, og ég óttast að það muni birtast fyrr en varir.