135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

staðan í sjávarútvegi, kjör sjómanna og fiskvinnslufólks.

[14:04]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu en vil segja það út af orðum hv. síðasta ræðumanns að það er dálítið sérkennilegt þegar búið er að hvetja mig til þess vikum og mánuðum saman að bregðast við breyttum aðstæðum, m.a. með því að opna hólf og skoða breytt viðmiðunarverk, og þegar við því er brugðist þá kemur þessi hv. þingmaður og reyndi skipstjóri og talar eins og hér hafi verið drýgð einhver erkisynd. Það var verið að bregðast við m.a. óskum starfandi sjómanna og skipstjórnarmanna sem hafa mikla þekkingu á þessum sviðum. Farið var yfir þetta með Hafrannsóknastofnun og þessi mál voru skoðuð mjög ítarlega á fundum þar sem bæði skipstjórar og vísindamenn sátu saman og þetta var niðurstaðan af því. Ég vek athygli á því að í Morgunblaðinu í dag er viðtal við Árna Bjarnason, forseta Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sem fagnar þessu sérstaklega. Ég held að það sé nú þannig almennt talað að meðal starfandi sjómanna sé mikill skilningur á þeim breytingum sem við erum að gera.

Í þessari umræðu komu í sjálfu sér ekki fram miklar tillögur, einungis þessi gamla tillaga hv. þm. Grétars Mars Jónssonar um að slíta á öll tengsl veiða og vinnslu og koma í veg fyrir að útgerðarmenn og fiskverkendur geti starfað saman eins og verið hefur og menn geti tryggt sæmilegt atvinnuöryggi hjá fiskverkunarfólki. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður vill banna mönnum að landa fiski í sínar eigin fiskvinnslustöðvar sem er náttúrlega alveg fáheyrt og undarlegt og mundi auðvitað vinna sérstaklega gegn hagsmunum dreifbýlisins og fólksins sem vinnur í fiskvinnslunni. Þessi tillaga hv. þingmanns kæmi beint í bakið á því fólki sem hann þykist bera fyrir brjósti.

Það sem hv. þm. Björn Valur Gíslason sagði hins vegar í fyrri ræðu sinni um að verið væri að brjóta samninga er náttúrlega mjög alvarlegt ef satt reynist og auðvitað verður þá að grípa til ráðstafana með viðeigandi hætti. Þess vegna höfum við einmitt frjáls verkalýðsfélög og launþegahreyfingu til að gæta réttar þess fólks sem er að starfa hvort sem er til sjós eða lands.

Virðulegi forseti. Eins og við höfum margoft sagt þegar við erum að draga saman seglin vegna fiskveiðistjórnarinnar, draga úr heildarafla, þá þurfum við einfaldlega að gera það á þann hátt sem við höfum gert. Við erum að reyna að skapa ný störf, við erum auðvitað ekki að skapa eins störf og hverfa vegna minnkandi aflaheimilda, það vissu allir fyrir, það gátu allir sagt sér sjálfir. Eða var það hulið fyrir þeim sem t.d. lögðu það fyrstir til að við færum í 130 þúsund tonn, þingflokkur Vinstri grænna?