135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:07]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það vekur sérstaka athygli við þetta fjáraukalagafrumvarp hversu ónákvæm tekjuspá frumvarpsins eða fjárlaganna hefur orðið annað árið í röð en við fórum aðeins yfir þetta mál í umræðunni um fjárlög fyrir nokkrum dögum þannig að ég ætla ekki að endurtaka það og vísa einfaldlega til þess sem ég hafði um það mál að segja við þá umræðu.

Ég vildi aðeins beina athyglinni að fáeinum atriðum í fjáraukalagafrumvarpinu og fá fram skýringar hæstv. fjármálaráðherra við þau. Ef svo gæti staðið á að hæstv. ráðherra gæti verið viðstaddur væri það þegið en ég geri ekki alvarlega athugasemd við það þótt hann verði fjarverandi, væntanlega verða hér aðrir menn sem geta tekið upp merki hans og hlaupið í skarðið og veitt svör við þeim fyrirspurnum sem ég kann að bera fram. Til dæmis veit ég að hv. þm. Kristján Júlíusson er örugglega á þeirri skoðun að hann sé fullfær um að gegna starfi fjármálaráðherra og geti tekið að sér að svara fyrir ráðherrann ef hann er vant við látinn (Gripið fram í: Byrjaðu bara, Kristinn minn.) Ég held að ég fari þá að þeim ráðum sem ég fæ héðan úr salnum.

Fyrst langar mig að koma að þeim lið í kaflanum um fjármálaráðuneytið sem varðar viðhald fasteigna ríkissjóðs. Þar eru lagðar til 333 millj. kr. til framkvæmda við endurbætur og viðhald fasteigna og mannvirkja í eigu ríkisins. Það er í samræmi við það sem kynnt hefur verið í mótvægisaðgerðum og það má finna þessa fjárhæð í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar frá þeim tíma. Í athugasemdum við frumvarpið segir að litið verði sérstaklega til þeirra sveitarfélaga og svæða þar sem í ljós kemur að aflasamdráttur í þorski muni leiða til fækkunar starfa. Ég vil gjarnan fá frekari skýringar á þessu. Hvernig verður litið til þessara svæða? Verður þar einvörðungu horft á hversu mikill samdrátturinn er í sjávarútvegi eða verður horft til þess hve samdrátturinn í sjávarútvegi er mikill af heildaratvinnustarfsemi svæðisins. Það er ólíku saman að jafna verði töluverður samdráttur í þorskveiðum í byggðarlagi þar sem þorskveiðar eru stór hluti atvinnustarfseminnar og aðrir atvinnuvegir ekki öflugir, eða í stóru sveitarfélagi eins og t.d. Reykjavík þar sem segja má að sé yfirfljótandi vinna. Þannig að þótt þar yrði töluverður samdráttur í störfum vegna niðurskurðar á þorskveiðiheimildum mundi ég varla telja að það hefði í heildina áhrif á atvinnustöðu svæðisins. Það gæti haft áhrif á þá sjómenn eða starfsmenn í greininni sem misstu vinnuna en þeir ættu a.m.k. möguleika á störfum á sínum heimaslóðum.

Ég tók eftir því þegar þetta var kynnt á sínum tíma að þá var það kynnt með þeim hætti að taka ætti tillit til atvinnusamsetningar og miða við að sjávarútvegur væri a.m.k. 10% af atvinnusamsetningu viðkomandi byggðarlags. Ég sé að það er hins vegar ekki í skýringunum með þessu fjárlagafrumvarpi þannig að ég spyr hvort fallið hafi verið frá þessari viðmiðun og hvort ætlunin sé að verja þessu fé til viðhalds eigna ríkissjóðs á miklu fleiri svæðum, fleiri byggðarlögum en ætla mátti miðað við þær skýringar sem komu fram á sínum tíma á blaðamannafundi þegar mótvægisaðgerðirnar voru kynntar. Það skiptir auðvitað máli t.d. hvort verja á einhverju af þessu fé, 330 milljónum, til viðhalds mannvirkja í eigu ríkissjóðs á höfuðborgarsvæðinu því þá væri peningurinn ákaflega fljótur að fara af því að þar eru náttúrlega langflestar eignir í eigu ríkissjóðs. Það mætti örugglega draga fram að samdráttur í sjávarútvegi verður tilfinnanlegur hjá þeim útgerðum og fyrirtækjum sem starfa þar og ef aðeins er horft á áhrifin í greininni kæmi höfuðborgarsvæðið til greina í þessu sambandi. Verði hins vegar tekið mið af skýringum fjármálaráðherra þegar hann kynnti málið á sínum tíma að fénu yrði einungis varið til þeirra byggðarlaga þar sem sjávarútvegur væri yfir 10% af atvinnustarfsemi, þá horfir málið auðvitað öðruvísi við. Mér finnst skipta máli að fá þetta á hreint þar sem skýringarnar með fjárlagafrumvarpinu passa ekki við skýringarnar í mótvægisaðgerðunum.

Í öðru lagi staldra ég við liðinn Rekstur fyrrum varnarsvæða á Keflavíkurflugvelli, 280 millj. Það er eiginlega meira til að átta mig á því sem þar hefur verið að gerast. Ég sé í fréttum af því að á annað þúsund íbúðum þar var ráðstafað til þróunarfélagsins sem síðan er búið að selja til nýs hlutafélags sem heitir Háskólavellir ehf. Þeir hafa keypt 1.660 íbúðir auk annarra mannvirkja fyrir 14 milljarða kr. Það þýðir að söluverð á hverri íbúð er ekki hærra en 8,4 millj. að meðaltali en þá á eftir að taka tillit til verðs á öðrum mannvirkjum en íbúðarhúsnæði. Ég býst þess vegna við að verð á hverri íbúð sé nokkru lægra en 8,4 millj. Ég spyr: Eiga þessar 280 millj. kr. að renna til þróunarfélagsins? Er verið að greiða hlut ríkissjóðs inn í kaup á þessum eignum eða á þetta fé að renna til að greiða reksturinn á þessum íbúðum og þar með talinn rekstur á þeim 350 íbúðum sem hafa verið leigðar á svæðinu til nemenda sem stunda háskólanám á höfuðborgarsvæðinu og fengu tilboð um leigu á íbúðum í Keflavík á mjög hagstæðum kjörum miðað við leiguverð íbúða þar hvort heldur miðað er við stúdentaíbúðir eða íbúðir á almennum markaði? Munurinn fyrir sambærilega íbúð er um 100 þús. kr. á mánuði sem leigan í Keflavík er lægri en á almennum markaði í Reykjavík. Það dregur auðvitað að stúdenta frá Reykjavík til að setjast að í Keflavík auk þess sem þeim eru boðnar fríar ferðir í almenningsvögnum á milli og frír netaðgangur eða hann er innifalinn í leiguverðinu. Er verið að verja þessu fé, 280 milljónum, til að greiða niður þessar ráðstafanir? Það væri fróðlegt að fá skýringar ráðherra á því í hvað á að ráðstafa þessu fé og almennt um ráðstöfun á þessum íbúðum.

Ég sé þessa ráðstöfun á íbúðum í Keflavík til háskólastúdenta við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík vera kannski dæmigerðar mótvægisaðgerðir við það að herinn fór. Það er verið að aðstoða byggðina á Suðurnesjum við að halda velli eftir þá breytingu sem varð, sem var töluvert áfall í atvinnumálum fyrir þetta svæði. Ég hef engar athugasemdir við það að hæstv. ráðherra sé að vinna að mótvægisaðgerðum þarna eins og annars staðar þar sem áföll verða í atvinnulífinu. En ég vildi gjarnan fá upp á borðið aðgerðirnar sem ríkisvaldið hefur gripið til, mótvægisaðgerðirnar á Suðurnesjum. Er þessi liður sem ég spyr um bara hluti af því og verður framhald á því til dæmis í fjárlögum næsta árs að ríkið leggi til fé til þess að gera Keili kleift að leigja út íbúðir og laða til sín fólk á mjög hagstæðum kjörum. Það er alveg greinilegt að þessi aðgerð virkar og ég held að menn ættu þá að læra af því og nota hana til dæmis annars staðar. Það væri til dæmis líka hægt að láta hana virka á Akureyri með því að ríkið greiddi niður húsaleigu þar fyrir til dæmis fólk sem stundar nám við Háskólann á Akureyri, til að laða fólk til að stunda nám sitt við Háskólann á Akureyri. Þrátt fyrir að stjórnmálamenn hafi á síðustu árum gert býsna mikið til að reyna að efla atvinnulíf á Akureyri þá verður að segjast eins og er að ef maður skoðar tölur um íbúaþróun þar þá hefur lítið í raun gerst þar meira en að halda í horfinu, virðulegi forseti. Ég veit að þetta er sárt fyrir fyrrverandi bæjarstjóra en ég held að þetta séu svona kannski sannmælin í því. Það hefur auðvitað margt verið gert en á engan hátt hefur tekist að gera Akureyri að einhverju mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Það hefur algerlega mistekist.

Það er eðlilegt að menn leiti þá að frekari leiðum til að styrkja þann stað sem mér finnst eðlilegt að gera. Þetta væri þá leið sem ég bendi á með vísan til þess að hún hefur þegar verið farin og með góðum árangri. Mótvægisaðgerðir hljóta að vera þannig hugsaðar af hálfu stjórnvalda að þau séu tilbúin að beita sambærilegum aðgerðum sem víðast um landið þar sem þær eiga við.

Ég hef nefnt sem dæmi inn í þessa umræðu mótvægisaðgerðir sem raunverulega er það sama og felst í því að auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna með þessum hætti og það er einfaldlega að lækka skattana, hvort sem menn gera það í gegnum tekjuskattinn eða útsvarið. Það hefur áhrif alveg eins og þetta hefur áhrif með stúdentana. Ef fólkið bætir kjör sín með aðgerðum hins opinbera þá hefur það áhrif til þess að draga fólk til búsetu þar sem ætlast er til.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra líka hvar sé að finna í frumvarpinu fjármuni til að standa undir ákvörðun hans og dómsmálaráðherra um að greiða lögreglumönnum sérstaka 30 þús. kr. greiðslu á mánuði sem kveðið er á um í kjarasamningum, reyndar við fleiri stéttir en lögreglumenn, og spyr hæstv. ráðherra hvort hann muni ekki beita sér fyrir því að sambærilegt ákvæði verði nýtt í öðrum kjarasamningum sérstaklega þar sem eftir því hefur verið sótt. (Gripið fram í.)

Í fjórða lagi vil ég vekja athygli á því að fjárlögin og fjáraukalögin gefa okkur ekki heildarmynd af umsvifum hins opinbera. Ég spyr: Hvar er að finna í þessu fjáraukalagafrumvarpi umsvifin við Reykjavíkurhöfn, uppbygginguna í tónlistar- og ráðstefnumiðstöðinni. Hvar er það að finna í fjárlagafrumvarpinu? Þetta eru framkvæmdir upp á 14–16 milljarða kr. hlut ríkissjóðs sem á að vera lokið á árinu 2009. Fyrir atbeina og afl ríkissjóðs inn í þessar framkvæmdir er ráðist í byggingu hótels á sama tíma með 250 herbergi sem líklega kostar jafnháa fjárhæð og tónlistar- og ráðstefnumiðstöðin. Þar til viðbótar er verið að reisa nýjar höfuðstöðvar Landsbanka Íslands á sama stað. Þar til viðbótar er verið að byggja verslunarmiðstöð. Ef við skoðum þennan byggingarreit má ætla — vil ég þó ekki fullyrða því ég hef ekki nákvæmar upplýsingar um kostnað á öllum þessum framkvæmdum — en það má ætla að þessar framkvæmdir séu á bilinu 30–50 milljarðar kr. sem standa yfir núna og á næstu tveimur árum. (Gripið fram í.) „Miklu meira“ heyri ég kallað og ég ætla ekkert að rengja það því ég hef einfaldlega ekki upplýsingar til að vega það eða meta. En þetta er mín ágiskun.

Hvar eru mótvægisaðgerðirnar á landsbyggðinni gegn þessum framkvæmdum, virðulegi forseti? Hvar eru þær mótvægisaðgerðir, hv. varaformaður fjárlaganefndar? Ætlar fjárlaganefndin að steypa öllum framkvæmdum á vegum ríkissjóðs eða með tilverknað ríkissjóðs inn á höfuðborgarsvæðið? Er verið að flytja fólkið suður, virðulegi forseti? Menn hljóta að spyrja: Hvað ætlast ríkisstjórnin fyrir? Ég ætla ekki að þreyta hæstv. fjármálaráðherra á því að rifja upp umræður sem hafa orðið í þingsalnum á undanförnum tveimur árum um skuldbindingu ríkissjóðs, um hlut ríkissjóðs í byggingu og rekstri tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvarinnar á næstu 35 árum. Samningurinn og skuldbinding ríkissjóðs var aldrei lögð fyrir Alþingi. Það er ekki ég sem fullyrði þetta, virðulegi forseti, það er fyrrverandi varaformaður fjárlaganefndar og ég veit að hæstv. fjármálaráðherra veit hver hann er. Ég þarf ekki að rifja það upp.

Hvar eru þessar skuldbindingar? Af hverju koma þær ekki inn í fjárlögin? Hvar eru skuldbindingarnar á samningi hæstv. menntamálaráðherra við Háskóla Íslands? Sá samningur var undirritaður skömmu fyrir síðustu kosningar, snemma á þessu ári, upp á 8 milljarða kr. á fáum árum. Það eru 8 milljarða kr. útgjöldum ríkissjóðs á fáum árum. Hvar eru þau útgjöld í fjáraukalagafrumvarpinu eða fjárlagafrumvarpinu? Hvernig getur það gengið, virðulegi forseti, að stóru fjárhæðirnar eru ekki hér á blaðinu fyrir framan okkur? Þær eru gerðar utan þingsalarins. Fjármálastjórn gengur ekki, virðulegi forseti, með þessum hætti. Alvörufyrirtæki á einkamarkaði sem hefði svona forstjóra eða fjármálastjóra mundi reka slíkan mann strax. (JBjarn: Ættum við ekki bara að gera það?) Ég hlýt að spyrja hvort þeir ábyrgu stjórnmálaflokkar sem eru við völd um þessar mundir ætli að viðhalda þessum lausatökum í fjármálum ríkissjóðs, ætli að líða það að einstakir ráðherrar geti skrifað undir skjöl úti í bæ og skuldbundið ríkissjóð um tugi milljarða kr. Og svo er hér verið að rífast um einhverjar 5 milljónir í einhverjar mótvægisaðgerðir á þessum stað og 10 milljónir á hinum staðnum og egna þingmenn til að deila um það þegar stóru stærðirnar liggja þarna.

Ég held, virðulegi forseti, að það þurfi að verða veruleg bragarbót á í þeim efnum og það er nærtækast að vísa til álits ríkisendurskoðanda og hvatningar hans til að gera breytingar í þessum efnum.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, minna á það, svo það gleymist ekki við þessa umræðu, að margt af því sem hér er dregið fram óbirt í þessu fjáraukalagafrumvarpi sem mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar á þorskveiðiheimildum eru tillögur til að mæta stöðunni á Vestfjörðum eins og hún var í vetur samkvæmt skýrslu sem kom út í mars skömmu fyrir síðustu alþingiskosningar, skýrslu nefndar sem í sátu nær eingöngu sjálfstæðismenn ef ég veit rétt — aðrir fengu nú ekki að koma þar að borði — sem var til þess að telja Vestfirðingum trú um að hægt væri að skapa aðstæður með jákvæða framtíðarsýn þar sem fólki mundi fjölga og verða orðið árið 2020, þ.e. að þá yrðu Vestfirðingar hvorki fleiri né færri en 8.300.

Til þess að ná því markmiði var útbúin mikil skýrsla með mörgum tillögum. Þær eru svo hér lið fyrir lið teknar inn í þetta fjáraukalagafrumvarp og heita þar aðgerðir til mótvægis niðurskurði á þorskveiðiheimildum sem ekki var komið til tals á þeim tíma. Ég hlýt þá að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hefur þá ríkisstjórnin með tilkomu Samfylkingarinnar fallið frá þessari framtíðarsýn að það fjölgi á Vestfjörðum fram til 2020? Á þá bara að reyna að andæfa niðurskurði þorskveiðiheimilda? Eru menn þá búnir að ýta til hliðar öllum áformum um að reyna að gera betur, reyna að snúa þróuninni við? Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst ekki stórmannlegt af hæstv. ríkisstjórn að skreyta sig með þessum fjöðrum sem hún seldi kjósendum í Norðvesturkjördæmi fyrir kosningarnar í maí síðastliðnum, að reyna að endurvinna þær sem mótvægisaðgerðir við ákvörðun ríkisstjórnarinnar eftir kosningarnar í maí síðastliðnum.

Ég held að ég láti máli mínu lokið, virðulegi forseti, með þessum fáu orðum um fjáraukalagafrumvarpið fyrir þetta ár.