135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:29]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ekki þurfi annað en bara skoða tölur um íbúaþróun á Akureyri á síðustu árum annars vegar og hins vegar taka saman á einn stað allt það sem stjórnvöld hafa beitt sér fyrir að gert verði á staðnum á undanförnum árum, sem er býsna mikið, til að átta sig á því að árangurinn til uppbyggingar hefur ekki verið í samræmi við það sem ætlast var til. Íbúum hefur fjölgað ákaflega hægt og lítið og langtum minna en á höfuðborgarsvæðinu eða að landsmeðaltali. Ég held því að erfitt sé að andmæla þessu sjónarmiði mínu í þeim efnum.

Það er misskilningur hjá hv. þingmanni að fram hafi komið einhver önnur sjónarmið af minni hálfu gagnvart Akureyri á undanförnum árum. Hann hefur að vísu ekki verið í þingsalnum þannig að ég held að hann hafi fengið (Gripið fram í.) rangar upplýsingar um þau sjónarmið sem ég hef sett fram. Ég fagna því hins vegar að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson er stuðningsmaður þess núna og hefur áttað sig á því að breytingar í sjávarútvegi kalla á aðgerðir hins opinbera til að vega á móti þeim, breytingar sem verða vegna þess að minna er til að veiða og vinna á einhverjum tilteknum stað. Það að ríkisstjórnin hefur gripið til mótvægisaðgerða er viðurkenning á því. Það að skera fiskveiðiheimildir í þorski niður um 30% hefur sömu áhrif og á sumum stöðum hafa orðið þegar veiðiheimildir eru fluttar þaðan á aðra staði. Þá hefur hv. þm. Kristján Þór Júlíusson ásamt mörgum öðrum dyggum stuðningsmönnum kvótakerfisins talað gegn því að það þyrfti að bregðast við slíkum áhrifum.