135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:31]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi íbúaþróun á Akureyri og upplýsingar mínar um þá orðræðu sem á sér stað á Alþingi þá hef ég hana einfaldlega úr þingtíðindum og gæti við betra tækifæri vitnað orðrétt til ræðu sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hélt hér eitt sinn um málefni Akureyrar. En það er annað mál og við skulum láta það liggja á milli hluta.

Íbúaþróun á Akureyri hefur verið yfir landsmeðaltali síðastliðin 10 ár og ég bið hv. þingmann um að kynna sér það. Svo getum við alveg deilt um það hversu æskilegt hámark ætti að vera í því. Landsmeðaltal íbúaþróunar í landinu öllu liggur nærri einu prósenti og íbúaþróun á Akureyri hefur verið þar yfir síðastliðin ár, eins og ég gat um hér áðan og tel það bara vera þokkalega vel að verki staðið.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé að þakka aðgerðum stjórnvalda. Það er svo langur vegur frá. Það er fyrst og fremst að þakka áræði og dugnaði heimamanna sjálfra. Líka innan sjávarútvegs. Það var fyrirtækið Samherji hf. sem tók við þegar sambandsverksmiðjurnar með 700 störfum hrundu gjörsamlega til grunna, því miður. Þá byggði endurreisn bæjarfélagsins í atvinnulegu tilliti til á frumkvæði og dugnaði og áræði einstaklinga. Við njótum þess enn í dag. Ég hef aldrei verið talsmaður þess að ríkið ætti að hafa bein inngrip inn í þennan atvinnurekstur. Það er langur vegur frá.

Varðandi umræðu sem farið hefur fram um mótvægisaðgerðirnar vil ég líka nefna að þær aðgerðir sem þar er verið að ræða um í byggðarlegu tilliti hefðu löngu fyrr verið komnar fram. Þá værum við kannski ekkert að ræða það sem mótvægisaðgerðir í dag, þessi sjálfsögðu verkefni, að gefa fólki á landsbyggðinni kost á því að breyta um í atvinnulegu tilliti þegar þrengir að í þeim sveiflukennda atvinnuvegi sem sjávarútvegurinn er. (Forseti hringir.) Það hefur legið fyrir í allmörg ár að starfa í þeirri atvinnugrein bíður ekkert annað en að fækka.