135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:56]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að vandlega er búið um hnúta í þessum efnum. Á þessum tíma var afskaplega mikilvægt að gert yrði samkomulag við Landsvirkjun um þessi vatnsréttindi þar. Ef það hefði ekki verið gert eða væri ekki gert gæti það staðið því fyrir þrifum að þessi mál gætu þróast áfram á eðlilegan hátt, meðal annars vegna þess að sveitarfélögin höfðu sett það skilyrði fyrir því að breyta skipulagi að búið væri að semja við þá sem eiga vatnsréttindi sem ríkið á ekki. Því var þetta nauðsynlegt, málið hefði getað stöðvast.

Þannig er um hnúta búið í þessum málum, og er um það fjallað í raforkulögum, í lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og í þjóðlendulögum, að í fyrri tilvikunum tveimur hefur iðnaðarráðherra það hlutverk að semja um endurgjald fyrir nýtingu á vatnsréttindum ríkisins. Hann hefur reyndar líka það hlutverk að úthluta rannsóknarleyfum og þeim hefur verið úthlutað til Landsvirkjunar í þessu tilfelli, auk þess að úthluta virkjunar- eða nýtingarleyfum. Það má eiginlega lýsa þessu samkomulagi sem svo að það sé ekki klárað þar sem það er háð því skilyrði að nýtingarleyfið fáist. Það er hlutverk iðnaðarráðherra að veita það og fyrr en það er komið er ekki hægt að fullnusta samkomulagið.

Landbúnaðarráðherra kemur að þessu vegna jarðarinnar Þjótanda. Hún hefur ekki enn verið seld en Flóahreppur á ekki forkaupsrétt. Fjármálaráðherra kemur að þessu vegna almenns fyrirsvars fyrir eignum ríkisins. (Forseti hringir.) En það er vel um þessa hnúta búið, hv. þingmaður.