135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:58]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt í síðustu setningunni að hæstv. ráðherra kom að því hvert hlutverk fjármálaráðherra hefði verið og væri í þessum efnum, jú, hann á að passa eigur ríkisins. Ég tel, frú forseti, að það hafi hann ekki gert.

Það er til lítils að vísa á það að iðnaðarráðherra beri að semja um endurgjald fyrir réttindi sem þessi, samkvæmt raforkulögum og þjóðlendulögum og guð má vita hvaða lögum. Það er ekkert komið að því enda ekkert virkjunarleyfi sem liggur fyrir og þess vegna ekki um neitt endurgjald að semja.

Ég tel að orð ráðherrans hafi staðfest þann grun sem menn hafa haft um tilganginn með þessu, það er að ríkisstjórnin hafi á þeim tíma talið það mikilvægt að Landsvirkjun hefði þessi réttindi í hendi til þess að hægt væri að semja við landeigendur, til þess að hægt væri að sauma að landeigendum, vil ég orða það, til þess að hægt væri að kippa samningsstöðunni undan landeigendum í samningum við Landsvirkjun.

Ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á því að ekki hefur enn verið samið við landeigendur og það eru landeigendur þar eystra sem ætla sér ekki að semja við ríkið á þeim forsendum sem fyrir liggja. Þeirra á meðal eru jarðeigendur sem var boðin jörðin Þjótandi í skiptimynt fyrir sína jörð.