135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:31]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að blanda mér örlítið í þá umræðu sem hér á sér stað um frumvarp til fjáraukalaga. Eins og gefur að skilja fara menn vítt um völl í umræðunni og drepa þar niður sem áhugasvið þeirra liggur frekast og þrengja því töluvert í umræðunni um það.

Áður en ég fer yfir frumvarpið vildi ég gjarnan vekja máls á því að undir þessari umræðu, líkt og við 1. umr. fjárlagafrumvarpsins þegar það var lagt fram, hefur verið nægt rými í þingsalnum. Það hefur verið fámennt en afskaplega góðmennt við þessar umræður og það hefur vakið mig til umhugsunar um það hvort fjárlögin séu ekki nægilega spennandi umræðuefni. Á þeim skamma tíma sem ég hef setið á hinu háa Alþingi virðist a.m.k. vera nokkuð beint samband á milli þátttöku þingmanna í umræðum og þess hvort um er að ræða mál sem fjalla um það hvort við eigum að eyða einhverjum fjármunum í tiltekin „góð verkefni“. Þá er spenningurinn miklu meiri, þá er þátttakan meiri og þá er atið meira. Hér reynum við að horfa á hinar stóru línur í ríkisbúskapnum og leggja drög að starfsemi ríkisins á hverju ári í fjárhagslegu tilliti og það er, eins og ég raunar kom að við 1. umr. fjárlaga, verkefni sem hefur kannski ekki svo mikinn kjörþokka meðal þingmanna. Hitt hefur miklu meira aðdráttarafl að fá að eyða þeim krónum sem fjármálaráðuneytið hefur með höndum að draga í ríkiskassann af þegnum þessa lands.

Ef við lítum á þetta frumvarp til fjáraukalaga eins og það liggur fyrir sjáum við að stóru línurnar liggja í því að tekjur ríkissjóðs á árinu 2007 sveiflast verulega umfram þær forsendur sem lagðar voru í fjárlögunum, um heila 72 milljarða, og stefna í að verða rétt tæpir 450 milljarðar á árinu 2007. Þetta gerist þrátt fyrir að margumrædd lækkun á tekjuskatti einstaklinga upp á 1% hafi komið til framkvæmda á árinu og sannar að mínu mati ágætlega þá fullyrðingu og þá skoðun sem við sjálfstæðismenn höfum haldið fram að því minni skattbyrði þeim mun meiri tekjum höfum við úr að spila í ríkiskassanum. Það eykur einfaldlega svigrúm einstaklinga og fyrirtækja til athafna sem skilar okkur með öðrum hætti inn í ríkiskassann.

Gjaldahliðin er að sama skapi líka verulega frábrugðin því sem menn lögðu upp með. Hins vegar liggur fyrir í þessu frumvarpi ósk eða tillaga um að fjárheimildir ráðuneyta á árinu 2007 verði auknar um tæpa 16 milljarða kr. Bróðurpartur þeirrar fjárhæðar, eða rétt um 10 milljarðar, er reiknaðar stærðir og minni stærðir liggja í einstökum fjárveitingum til einstakra ráðuneyta en stærstu atriðin í þessu eru hins vegar, eins og komið hefur fram áður í þessari umræðu, 4 milljarða afskrift af skattaskuldum og síðan hefur verið rætt töluvert um 1,3 milljarða, sem ég ætla að koma að á eftir, í svokallaðar mótvægisaðgerðir í tengslum við niðurskurð á þorskaflahámarki.

Allt þetta tengist síðan líka inn í sjóðstreymi ríkissjóðs og þar eru einnig gríðarlegar sveiflur. Ef við lítum örlítið á það nánar eins og það er birt í frumvarpinu þá var gert ráð fyrir að útstreymi fjármunahreyfinga á sjóðstreyminu yrði jákvætt um 3 milljarða, innstreymi, en niðurstaðan verður útstreymi upp á 63,5 milljarða. Þarna er umsnúningur upp á hátt í 70 milljarða sem er gríðarleg sveifla og þetta stafar aðallega af tveimur þáttum. Annars vegar auknum eiginfjárframlögum og hins vegar kaupum og sölum á eignarhlutum og stærst í þeim efnum eru kaup ríkissjóðs á eignarhlutum sveitarfélaga í Landsvirkjun en í eiginfjárframlögunum er innleggið inn í Seðlabankann upp á 44 milljarða.

Það er alveg rétt eins og margítrekað hefur verið í umræðunni um fjáraukalagafrumvarpið að það eru gríðarleg frávik fyrirsjáanleg í niðurstöðum ríkisreiknings árið 2007 frá fjárlögum sama árs. Það kemur ágætlega fram á blaðsíðu 60 í frumvarpinu og ég ætla að leyfa mér að vitna orðrétt til þess, með leyfi forseta.

„Viðvarandi þróttur efnahagslífsins er meginskýring enduráætlunar tekna ríkissjóðs til hækkunar en gagnstætt því sem reiknað var með við áætlun fjárlaga hefur einkaneysla aukist og atvinnuleysi minnkað á árinu. Laun hafa hækkað meira en áætlað var í upphafi árs og starfandi fólki haldið áfram að fjölga, m.a. vegna aðstreymis erlends vinnuafls.“

Þetta eru að sjálfsögðu þær stærðir sem hleypa þessu öllu úr böndunum. Við höfum átt umræðu um þessa þætti í fjárlaganefnd við undirbúning fjárlaga fyrir árið 2008, m.a. átt viðræður við fulltrúa fjármálaráðuneytisins um þær staðreyndir sem hér liggja á borðinu. Þær hljóta að kalla á að við förum í gegnum það með mjög ákveðnum hætti hvernig forsendur fyrir fjárlagafrumvarpi eru lagðar og hvaða líkön fjármálaráðuneytið og þingið hefur til þess að spá fyrir um væntanlega efnahagsþróun á komandi árum. Það er sameiginleg niðurstaða okkar og skilningur að við þurfum að endurbæta þau líkön frá því sem nú er.

Ég nefndi það líka áðan að það færi dálítið eftir áhugasviði hvers og eins þingmanns hvað hér kæmi til umræðu. Við heyrðum það í umræðunni áðan hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, hvað hann ræddi. Fyrr á þessum þingfundi voru miklar umræður um svokallaðar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar og bar töluvert á milli í skilningi manna á þeim aðgerðum sem þar eru boðaðar. Ég ítreka að þær aðgerðir sem felldar eru undir þetta samheiti, mótvægisaðgerðir, eru þess eðlis að allir rétthugsandi einstaklingar á þinginu hljóta að fagna því sem þar er á ferðinni. Vissulega getum við haft skiptar skoðanir á því hvort gera eigi meira eða hvort áherslur eigi að vera aðrar en öll hljótum við að geta verið sammála um að aðgerðirnar sem þarna er lagt til að ráðist verði í hljóti með einum eða öðrum hætti að bæta þau lífsskilyrði sem fólk býr eða hefur búið við í afskekktari byggðum landsins. Það er alveg einboðið að draga þá ályktun og það er vel.

Ég hef haldið því fram að ráðast hefði átt í mörg þeirra verkefna sem þarna er um að ræða fyrir löngu síðan. Við sjáum það á hvoru tveggja, í forsendum og niðurstöðum þeirra tillagna sem liggja fyrir í fjárlagafrumvarpi ársins 2008 og enn fremur í því frumvarpi til fjáraukalaga sem hér liggur fyrir að efnahagsleg geta og fjárhagslegt svigrúm ríkissjóðs til að takast á við þessi löngu tímabæru verkefni, hefur aldrei verið betra en einmitt nú og því er ekkert skrýtið að menn grípi til þessara aðgerða.

Að því hefur verið spurt — mig minnir að það hafi verið hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hér áðan þegar hann var að fjalla um fjáraukalagafrumvarpið — hvernig ég áliti að staðið yrði við það að þessi fjárveiting sem mest væri viðhald fasteigna ríkissjóðs út um land yrði nýtt til viðhalds á ríkiseignum á þeim svæðum sem yrðu hart úti í niðurskurði þorskaflaheimilda. Ég get svarað því hér og nú að ég tek að sjálfsögðu þá skýringu gilda sem þar er lögð til grundvallar og sett fram í frumvarpinu og lít þannig til að megináherslan verði á þær fasteignir sem ríkissjóður hefur trassað viðhald á síðastliðin ár og að þær eignir njóti forgangs í þessum efnum. Það er einboðið að horfa þannig til og ég tel ekki nokkra ástæðu til annars en að ætla að eftir því verði unnið.

Við höfum rætt m.a. við heilbrigðisráðuneytið sem upplýsti okkur á fundi í fjárlaganefnd í gærmorgun að sú vinna sé hafin á milli heilbrigðisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins að móta tillögur í þeim efnum hvernig þessum eina milljarði verði skipt og meginástæðan, eins og kemur fram í texta frumvarpsins, liggur til þess að leggja bróðurpart þessara fjármuna inn í viðhald heilbrigðisstofnana. Ég get alveg játað það úr þessum ræðustóli, eftir ferð fjárlaganefndar um Suðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi ásamt því að þekkja til heilbrigðisstofnana víðar um land, að ekki er vanþörf á að leggja aukna fjármuni til viðhalds þessum eignum og er í rauninni í mínum huga fyrst og fremst vörn ríkisins til að verja þessar eignir gegn frekari skemmdum.

Í fjárlagafrumvarpinu er, ef ég man rétt, gert ráð fyrir því í heilbrigðisráðuneytinu, sem hefur með höndum mjög stóran eignastabba, að til viðhalds allra húseigna eða fasteigna sem þar heyra undir fari um 73 millj. Það hlýtur að vera einboðið að bæta í þá tölu að mínu mati vegna þess að eignasafnið er gríðarlega stórt og þessi fjárveiting, að öllu óbreyttu, dugar lítt til að halda í við þær skemmdir sem þar hafa verið að myndast. Vil ég þá sérstaklega nefna eina húseign sem ég gekk inn í og það var heilbrigðisstofnun í Keflavík sem var afskaplega illa farin.

Ég vænti þess svo sannarlega að á þessum málum verði tekið með miklum myndarbrag. Ég sé ekki annað af því fjáraukalagafrumvarpi sem hér liggur fyrir en að efni séu til þess og enn fremur vænti ég þess ef maður tengir þetta frumvarp við það frumvarp sem liggur fyrir um fjárlög ársins 2008 að við getum tekið ágætlega á.

Ég vil að lokum geta þess að við erum að hefja umræðu og vinnu með þetta mál í fjárlaganefndinni og ég vænti góðs samstarfs eins og áður við fjármálaráðuneytið í þeim efnum sem og önnur ráðuneyti þegar við förum yfir tillögur eða óskir þeirra um viðbót á fjárlögum ársins 2007. Ég ítreka og vil raunar líka taka undir þær þakkir sem bornar hafa verið fram til þeirra starfsmanna sem lagt hafa hönd að verki við að semja þetta frumvarp.