135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:47]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal með ánægju útskýra fyrir hv. þingmanni Birni Val Gíslasyni hvað ég átti við með orðunum allir rétthugsandi einstaklingar. Það skýrist, hv. þingmaður, m.a. af því sem ég nefndi fyrr í umræðunum, ég er sannfærður um að allir rétthugsandi Íslendingar hafa áhuga á því að við byggjum þetta land í sameiningu, þessir 300 þús. íbúar. Markmið okkar er að búa þegnum þessa lands sem best búsetuskilyrði hvar svo sem þeir kjósa að búa á landinu. Það er okkar meginverkefni. Og það er þetta sem ég á við þegar ég tala um rétthugsandi Íslendinga. Það á hvorki skylt við einhverja pólitíska lífssýn né neitt annað, er þvert á móti fyrst og fremst út frá þessu sjónarhorni.

Varðandi mótvægisaðgerðirnar sem hér hafa verið leystar upp og eru raunar tilgreindar allar á blaðsíðu 66 í frumvarpinu til fjáraukalaga, nákvæmlega tilgreindar þar, get ég tekið undir margar þeirra athugasemda sem menn gera við einstök verkefni sem hafa verið lengi í burðarliðnum. Vissulega hefðu þau, mörg hver, mátt vera komin fram miklu fyrr. Vissulega er búið að vinna að þeim, eins og t.d. stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð, í mörg herrans ár eins og hér hefur komið fram og kom m.a. ágætlega fram hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni.

Ég læt mér í léttu rúmi liggja skilgreininguna á því hvort þetta eiga að heita mótvægisaðgerðir eða byggðaaðgerðir, eða bara framkvæmdir til þess að styrkja stöðu fólks sem vill búa utan þessa svæðis. Meginatriðið í mínum huga er að hér er verið að leggja fram tillögur til þess að efla byggð um landið. Við getum hins vegar verið alveg sammála um að við vildum gera miklu meira, vissulega, til að styrkja og bæta búsetuskilyrði vítt um land. En við eigum (Forseti hringir.) ekki að lasta það sem vel er gert. Það er mín skoðun.