135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:49]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ágætt að fá seinni skýringu þingmannsins á því hvað hann á við með rétthugsandi einstaklingum, þ.e. að það eru þeir einstaklingar sem eru að byggja þetta land en ekki eins og mátti auðveldlega lesa úr orðum hans hér áður að það væru þeir einstaklingar ekki sem ekki væru honum sammála um mótvægisaðgerðir.

Hann lætur sér í léttu rúmi liggja hvað aðgerðirnar heita sem eiga að koma landsbyggðinni til bjargar vegna niðurskurðarins í þorskinum og stöðunnar í sjávarútvegi. Í sjálfu sér má taka undir að það skipti ekki máli hvað hlutirnir heita, svo framarlega sem þeir eru gerðir og ekki ætla ég að lasta það sem vel er gert af hálfu ríkisstjórnar í þeim málum. En ég tel bara alls ekki vel að málum þar staðið.

Mér finnst það líka skipta máli að verkefni sem þegar hafa verið í farvatninu og þegar hafa verið í gangi séu flokkuð frá þeim séraðgerðum sem ríkisstjórnin hyggst fara í sem mótvægisaðgerðir. Mér finnst skipta máli að ekki sé verið að kippa inn í mótvægisaðgerðirnar og skíra upp á nýtt þá hluti sem eru búnir að vera í gangi árum og áratugum saman eins og ég nefndi hér áðan, varðandi framhaldsskólann, togarararallið og ýmis menntamál að auki.

Mér finnst það líka skipta máli og lýsa viðhorfi ríkisvalds til uppbyggingar á landinu, t.d. í menntamálum og vegamálum, að það séu kallaðar sérstakar mótvægisaðgerðir að byggja upp menntun í landinu og efla vegasamgöngur. Ég lít ekki á það sem einhvers konar neyðaraðgerð eða mótvægisaðgerð. Það á að byggja hér upp jafnt og þétt menntunarstigið í landinu og það á að byggja hér upp jafnt og þétt vegakerfið í landinu, óháð því hvernig staða fiskstofnanna er hverju sinni.